- Auglýsing -
- Auglýsing -

Lagt til að stjórn geti breytt félagsskiptatímabilinu

Ekki er reiknað með að 64. ársþing HSÍ verði þing átaka. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

Fyrir utan tillögu frá HK um fjölgun liða í Olísdeild kvenna snúa flestar aðrar tillögur sem liggja fyrir 64. ársþingi HSÍ á mánudaginn að því að skerpa á þeim lögum sem gilda um starfið.


Má þar nefna að laganefnd HSÍ vill bæta inn í 57 gr. laganna að stjórn HSÍ verði heimilt breyta félagsskiptatímabilinu ef aðstæður skapast eins og átt hafa sér stað á yfirstandandi leiktíð þegar mótahald hefur slitnað og teygst nokkuð á langinn.


Verði þessi heimild til stjórnar samþykkt mun hún aðeins gilda fyrir eitt keppnistímabil í einu en ekkert verða að fastri reglu ef leikjaskipulag verður með hefðbundnum hætti.


Stjórn HSÍ hefur þegar heimild til þess að gera breytingar á mótafyrirkomulagi í undantekningartilfellum eins og sköpuðust t.d. fyrir ári þegar fyrirmæli stjórnvalda komu í veg fyrir að hægt væri að halda áfram keppni á Íslandsmótinu.

Hver ber kostnaðinn?

Einnig leggur laganefnd HSÍ til að bætt verði við 45. grein sem lýtur að niðurstöðu dómstóla HSÍ. Þar inní komi viðbótarákvæði að dómstóll ákveði í niðurstöðu sinni „hver ber kostnað af framkvæmd leiks ef það ber að endurtaka þá.“


Hvergi í lögum HSÍ er nú tekið fram hver beri kostnað ef endurtaka þarf leik. Í ofangreindri tillögu er það sett í hendur dómstóla að úrskurða um það.


Þess má geta að þetta atriði hefur verið talsvert til umræðu vegna niðurstöðu dómstóls HSÍ vegna viðureignar Stjörnunnar og KA/Þórs í Olísdeild kvenna sem til stendur að leikinn verði á ný.

Jafna stöðu kynjanna

Vegna stefnu stjórnar HSÍ að auka hlutdeild kvenna í starfi HSÍ er er lagt til í þingskjali fimm að „stjórn HSÍ skal leitast við að jafna hlutdeild kynja við skipun í nefndir innan HSÍ.“

Framboð til stjórnar

Einnig verður lagt til á þinginu að uppstillingarnefnd HSÍ hafi eingöngu heimild til þess að samþykkja framboð til embætta eftir að framboðsfrestur er liðinn „hafi ekki framboð borist í öll embætti stjórnar.“ Eins og heimild uppstillingarnefndar er nú þá getur hún í raun leitað eftir framboðum eftir að framboðsfrestur er liðinn til viðbótar við þau sem hafa komið fram.


Þá eru lagðar til orðalagsbreytingar á 33 gr. um kæru- og málskotsrétt.

Áhugasamir geta nánar kynnt sér gögn 64. ársþings HSÍ á heimasíðu sambandsins.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -