- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Landin mætti og sá um Flensburg

Niklas Landin fór á kostum í marki Kiel í gærkvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Þýsku meistararnir THW Kiel risu heldur betur upp á afturlappirnar í dag þegar þeir tóku grannlið sitt Flensburg í kennslustund og unnu með átta marka mun á heimavelli, 29:21, en fyrirfram var talið að um jafnan og spennandi leik yrði að ræða því um er að ræða tvö sterkustu félagslið í Þýskalandi að margra mati.

Eftir níu mark tap fyrir HC Wetzlar, 31:22, um síðustu helgi var ljóst frá upphafi að leikmenn Kiel ætluðu sér að undirstrika að sá leikur hafi verið slys af þeirra hálfu.

Daninn Niklas Landin sneri til leiks eftir meiðsli og fór á kostum. Hann varði 17 skot og var ríflega 46% markvörslu þegar upp var staðið. Leikmenn Flensburg vissu ekki sitt rjúkandi ráð á tímabili gegn danska landsliðsmarkverðinum. Norðmaðurinn Torbjörn Bergerud í marki Flensburg náði sér lítt á strik og var með rétt innan við 30% hlutfallsmarkvörslu.

Kiel var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi en liðið náði þó ekki afgerandi forystu fyrr en í seinni hálfleik. Í hálfleik munaði tveimur mörkum á liðunum, 12:10. Kiel byrjaði hinsvegar síðari hálfleik með látum og skoraði fimm fyrstu mörk hálfleiksins á sjö mínútna kafla. Á þeim tíma skellti Landin hreinlega í lás og var kominn með ríflega 50% þegar 20 mínútur voru til leiksloka.

Domagoj Dunvnjak, fyrirliði, og Harald Reinkind skoruðu fimm mörk hvor og voru markahæstur hjá Kiel. Niklas Ekberg skoraði fjögur mörk. Jon Gottfridsson var markahæstur hjá Flensburg með sjö mörk. Magnus Röd var næstur með fjögur.

Stuðningsmenn Kiel gátu glaðst yfir fleiru en sigrinum og endurkomu Landin markvarðar vegna þess að Norðmaðurinn Sandor Sagosen mætti einnig til leiks eftir meiðsli. Hann náði sér þó ekki á strik, skoraði eitt mark í sex tilraunum.

Kiel og Flensburg eru tvö sex liða sem eru í öðru til sjötta sæti með sex stig eftir fjóra leiki. Hin eru Magdeburg, Bergischer, Rhein-Neckar Löwen og Wetzlar. Lemgo eða Stuttgart geta bæst í þennan hóp síðari í dag en þau eigast við þessa stundina á heimavelli Lemgo.

Alls fengu 2.400 áhorfendur að mæta á leikinn í íþróttahöllinni í Kiel þrátt fyrir að kórónuveiran hafi breiðst út um Þýskaland síðustu daga. Íþróttahöllin rúmar 10 þúsund áhorfendur í sæti.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -