Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna hefur keppni á Evrópumótinu í Innsbruck í Austurríki föstudaginn 29. nóvember gegn hollenska landsliðinu. Fyrsta æfingin í síðasta hluta undirbúningsins fyrir EM verður síðdegis í dag í Víkinni. Að sögn Arnars Péturssonar landsliðþjálfara á hann von á 15 leikmönnum til æfingarinnar. Þrjár verða fjarverandi í dag, Elín Klara Þorkelsdóttir og Rut Arnfjörð Jónsdóttir leikmenn Hauka og Dana Björg Guðmundsdóttir leikmaður Volda.
Leikir Íslands í F-riðli EM kvenna 2024:
29. nóvember: Ísland - Holland, kl. 17.
1. desember: Ísland - Úkraína, kl. 19.30.
3. desember: Ísland - Þýskaland, kl. 19.30.
Elín Klara og Rut eru á leiðinni heim í dag frá Króatíu þar sem þær voru að leika með Haukum í gær og í fyrradag í Evrópubikarkeppni kvenna. Dana Björg er í prófi í dag vegna kennaranáms sem hún leggur stund á. Von er á þremenningunum á æfingu síðdegis á morgun.
Æft verður hér á landi í þrjá daga áður en farið verður til Sviss á fimmtudaginn. Í Sviss bíða tveir leikir landsliðsins gegn landsliði Sviss á föstudag og sunnudag. Arnar sagði stefnt á að fara til Innsbruck hjá Sviss á þriðjudaginn í næstu viku, þremur dögum fyrir fyrsta leik landsliðsins á EM.
„Við hlökkum til þess að fara á fullt við undirbúning okkar,“ sagði Arnar sem veit ekki annað en að leikmennirnir 18 sem hann valdi til þátttöku á EM hafi komist meiðslalausir frá síðustu leikjunum með félagsliðum sínum á síðustu dögum og geti þar af leiðandi einbeitt sér að EM af fullum þunga.
- Handbolti.is verður vitanlega á EM, án ríkisaðstoðar, og fer utan með blaðamann og ljósmyndara sem fylgja landsliðinu eftir meðan það stendur í ströngu.
EM-hópurinn hefur verið opinberaður
A-landslið kvenna – fréttasíða.