Landsliðskonurnar Andrea Jacobsen og Díana Dögg Magnúsdóttir leika í riðlakeppni Evrópudeildar kvenna þegar hún hefst eftir áramótin. Lið þeirra, Blomberg-Lippe, tryggði sér í kvöld sæti í riðlakeppninni með því að leggja TuS Metzingen öðru sinni í síðari leik liðanna í annarri og síðari umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.
Blomberg-Lippe vann leikinn í kvöld, sem fram fór í Metzingen í suður Þýskalandi, 35:27. Fyrir viku vann Blomberg-Lippe heimaleik sinn með níu marka mun, 30:21.
Andrea skoraði fjögur mörk í leiknum í kvöld og Díana Dögg þrjú. Sandra Erlingsdóttir var ekki á meðal þeirra sem skoruðu fyrir Metzingen í leiknum.
Leikmenn Blomberg-Lippe fóru á kostum í fyrri hálfleik í kvöld og voru með 13 marka forskot þegar gengið var til búningsherbergja eftir 30 mínútur, 20:7. Staða þýsku bikarmeistaranna í Metzingen var þar með orðin harla erfið, nóg var nú samt eftir níu marka tap í fyrri viðureigninni.
EM tekur við
Þetta var níundi leikur Blomberg-Lippe í röð án taps.
Andrea og Díana Dögg geta þar með snúið sér að undirbúningi fyrir Evrópumótið í handknattleik sem hefst síðar í mánuðinum. Íslenska landsliðið kemur saman til æfinga á mánudaginn.