Íslensku landsliðsmarkverðirnir Ágúst Elí Björgvinsson og Viktor Gísli Hallgrímsson stóðu fyrir sínu í kvöld þegar lið þeirra, Kolding og GOG, mættust í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik á heimavelli Kolding á Jótlandi. Svo fór að Viktor Gísli og félagar hrósuðu sigri, 36:27, eftir að hafa verið sjö mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:12.
GOG er þar með enn efst í deildinni. Liðið hefur 34 stig eftir 19 leiki, hefur þremur stigum meira en meistararnir í Aalborg Håndbold og á auk þess leik til góða.
Ágúst og félagar eru í harðri baráttu við Fredericia um áttunda og síðasta sætið inn í úrslitakeppnina um danska meistaratitilinn. Kolding hefur 19 stig að loknum 20 leikjum en Fredericia er stigi á eftir og á leik til góða á Kolding.
Viktor Gísli varði 12 skot í kvöld, þar af tvö af þremur vítaköstum sem hann fékk á sig. Hann var með 30,77% hlutfallsmarkvörslu og stóð allan leikinn í marki GOG.
Ágúst Elí varði 14 skot og var með 31,1% hlutfallsmarkvörslu.
Elvar Örn Jónsson og félagar í Skjern máttu bíta í það súra epli að tapa fyrir botnliði Lemvig, 35:31, á útivelli. Lemvig var marki yfir í hálfleik, 18:17. Liðið rekur lestina í deildinni með fjögur stig eftir 20 leiki. Skjern er í sjöunda sæti með 21 stig eftir 19 leiki og verður að halda vel á spilunum á endasprettinum til þess að missa ekki af hinni eftirsóttu lest sem flytur átta efstu liðin í úrslitakeppnina um meistaratitilinn. Alls verða leiknar 22 umferðir í dönsku úrvalsdeildinni.
Elvar Örn skoraði þrjú mörk í sjö tilraunum og átti auk þess tvær stoðsendingar.