Landsliðsmennirnir Orri Freyr Þorkelsson og Viktor Gísli Hallgrímsson fögnuðu báðir sigrum með liðum sínum, Sporting og Wisla Plock, í 11. umferð A-riðils Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í kvöld. Sporting lagði Eurofarm Pelister, 30:24, á heimavelli og fór upp í annað sæti riðilsins með 15 stig, er stigi fyrir ofan Füchse Berlin og PSG. Síðarnefnda liðið tapaði fyrir Viktori Gísla og félögum í París, 31:28.
Orri Freyr hélt áfram að leika eins og sá sem valdið hefur líkt og hann gerði með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu.
Orri Freyr skoraði sjö mörk úr sjö skotum og var marki á eftir samherja sínum Salvador Salvador, landsliðsmanni Portúgal. Filip Kuzmanovski skoraði sex mörk fyrir Pelister sem situr í næst neðsta sæti riðilsins.


Var vel á verði
Viktor Gísli átti afar góðan leik í marki Wisla Plock í sætum sigri í París. Hann varði 12 skot, 33%. Ekki síst náði Viktor Gísli sér vel á strik í síðari hálfleik þegar Wisla sneri leiknum sér í hag eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 15:14.
Tomas Piroch skoraði 10 mörk fyrir Wisla Plock og Gergö Fazekas skoraði átta sinnum. Í stjörnum prýddu liði PSG skoruðu Luc Steins og Ferran Solé oftast, sjö sinnum hvor.
(Því miður hafa ekki borist myndir frá leik Sporting og Pelister).
Fyrr í kvöld voru tveir aðrir leikir á dagskrá:
Tíundi sigurinn hjá Aroni og félögum – Haukur var fjarverandi – myndskeið
Staðan í A-riðli Meistaradeildar: