Eftir því sem næst verður komist hefst sala á nýju landsliðstreyjunni í handbolta á næsta mánudag. Tveimur dögum síðar hefur íslenska landsliðið keppni á heimsmeistaramótinu í handknattleik kvenna í Þýskalandi.
Vísir sagði frá því í gærkvöld hægt væri að panta treyjuna í forsölu öllum stærðum á vef íþróttavöruverslunarinnar Boltamannsins.
Karlalandsliðið lék í nýja búningnum gegn Þýskalandi um síðustu mánaðamót.
Handbolti.is hefur reynt að ná í einn forvígismanna HSÍ í dag vegna treyjusölunnar en ekki haft erindi sem erfiði.
Hinn 3. nóvember hafði handbolti.is eftir fráfarandi framkvæmdastjóra HSÍ að treyjusalan færi af stað þegar liði á þennan mánuð. Það virðist ætla að vera raunin og ekki seinna vænna fyrir þá stuðningsmenn kvennalandsliðsins sem vilja hafa treyjuna með í farangrinum til Þýskalands.




