- Auglýsing -
- Auglýsing -

Langar aftur „heim til Þýskalands“

Aðalsteinn Eyjólfsson t.v. ásamt Aaron Ziercke sem er aðstoðarþjálfari GWD Minden. Mynd/GWD Minden
- Auglýsing -

„Ég var búinn að horfa til þess um nokkurt skeið að komast aftur „heim til Þýskalands“ þar sem ég þjálfaði árum saman og kunni vel við mig. Þegar þessi möguleiki bauðst þá þótti mér hann spennandi og ákvað að slá til,“ sagði handknattleiksþjálfarinn Aðalsteinn Eyjólfsson í samtali við handbolta.is eftir að tilkynnt var að hann væri á leiðinni í þýska handboltann á nýjan leik eftir þriggja ára fjarveru.

Aðalsteinn tekur við þjálfun karlaliðs GWD Minden í sumar. Félagið er eitt það rótgrónasta í þýska handknattleiknum og er ekki alveg ókunnugt Íslendingum.


„Minden hefur mikla hefð og sögu og stendur fjárhagslega á svipuðum stað og Wetzlar, Lemgo og Hamborg. Vissulega hefur liðið verið í basli síðustu tvö ár og ekki er séð fyrir endann á þeirri leiktíð sem nú stendur yfir og hvort liðinu takist að halda sæti í deildinni,“ segir Aðalsteinn sem er hvergi banginn hvort sem hann tekur við liðinu í sumar í efstu eða næst efstu deild.

Hræðist ekki 2. deild

„Ég hræðist ekki að byrja í annarri deild ef það reynist verða raunin. Önnur deild er skemmtileg. Hún getur skapað okkur tækifæri til að byggja liðið upp. Fjarhagslegur bakgrunnur Minden er þannig að vel er mögulegt að byggja upp mjög skemmtilegt lið til lengri tíma þótt maður verði að vera eitt ár í annarri deild,“ sagði Aðalsteinn sem hefur þjálfað lið í þremur efstu deildum þýska handknattleiksins í gegnum tíðina.

Aðalsteinn þjálfaði hjá Stjörnunni frá 2000 - 2002 og aftur 2005 - 2008, Gróttu KR 2002 - 2003, ÍBV 2003 - 2004, TuS Weibern 2004 - 2005, SVH Kassel 2008 - 2010, ThSV Eisenach 2010 - 2014, TV 05/07 Hüttenberg 2015 - 2017 (fór með liðið úr 3. deild og upp í efstu deild), HC Erlangen 2017 - 2020, og Kadetten Schaffhausen frá 2020 - 2023. Kadetten varð bikarmeistari 2021 og landsmeistari 2022.

Tækifærin eru fyrir hendi

„Þegar stjórnendur Minden höfðu samband við mig þá fannst mér staða liðsins í deildinni ekki vera aðalatriði heldur þeir möguleikar sem felast hjá félaginu. Minden er með lið sem á alltaf að vera í kringum miðja efstu deild. Ég hlakka til að takast á við verkefnin með þeim stjórnendum sem eru hjá félaginu um þessar mundir,“ sagði Aðalsteinn og bætti við að nýr framkvæmdastjóri hafi komið til félagsins fyrir um hálfu ári.

Langar að vinna á gólfinu aftur

„Mig langar einfaldlega að komast aftur í hlutverk þess að vera að þjálfa leikmenn, vinna á gólfinu og skapa. Það heillaði mig við verkefnið hjá Minden að fá tíma til að sinna þjálfuninni. Ég sakna hennar eftir þrjú ár í Schaffhausen þar sem við leikum tvo til þrjá leiki í viku allt tímabilið og vera meira og minna í leikjastýringu og greiningu,“ sagði Aðalsteinn sem bætir við að tæp þrjú ár hjá Kadetten hafi verið góðan tíma, ekki síst þátttakan í Evrópukeppninni. Kadetten hefur verið með í riðlakeppni Evrópudeildarinnar öll tímabilin. Einnig hafi covidtímabilið verið einkar lærdómsríkt. „Ég fer reynslunni ríkari frá Kadetten í sumar.“

Aðstoðarþjálfari GWD Minden og helsti samstarfsmaður Aðalsteins verður Aaron Ziercke sem m.a. hefur þjálfað HC Empor Rostock, TV Emsdetten og grannliðinu TuS N-Lübbecke og var um skamman tíma landsliðsþjálfari Lettlands. Ziercke er nú um stundir þjálfari varaliðs Füchse Berlin. Hann þekkir vel til hjá Minden eftir að hafa verið þar um skeið sem þjálfari yngri liða og aðstoðarþjálfari aðalliðsins í skamman tíma fyrir um áratug og leikmaður frá 1998 til 2004.

Skemmtilegt en lýjandi

„Hjá Kadetten eru um 60 leikir á tímabili með Evrópukeppninni og mörgum ferðalögum. Eins og þetta getur verið gaman þá er starfið einnig mjög lýjandi. Ég hef stundum grínast með það að ég hafi ekki náð tveimur æfingum á milli leikja síðan 2019 þegar ég var síðast í Þýskalandi. Ég hlakka til að fá meiri tíma til þess að byggja upp og skapa,“ sagði Aðalsteinn Eyjólfsson verðandi þjálfari GWD Minden í Þýskalandi.

Sveinn Jóhannsson gekk til liðs við GWD Minden um áramótin frá Skjern í Danmörku. Meðal íslenskra handknattleiksmanna hjá GWD Minden í gegnum tíðina má nefna Axel Axelsson, Ólaf H. Jónsson, Jón Pétur Jónsson, Sigurð Bjarnason, Patrek Jóhannesson, Einar Örn Jónsson, Gylfa Gylfason og Vigni Svavarsson.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -