Kristján Örn Kristjánsson, Donni, átti stórleik í kvöld þegar lið hans PAUC-Aix vann Tremblay með fimm marka mun á heimavelli í níunda sigurleik liðsins í röð í efstu deild franska handboltans, 32:27. PAUC er þar með komið upp í annað sæti deildarinnar með 18 stig eftir 10 leiki. PAUC hefur aðeins tapað fyrir PSG í fyrstu umferð.
Donni var markahæstur hjá PAUC með átta mörk í 12 skotum. Ekkert marka sinn skoraði hann úr vítakasti. „Ég gæti ekki verið ánægðari með fyrstu mánuði mína í atvinnumennsku,” sagði Donni við handbolta.is fyrir stundu. „Við förum alsælir inn í jólafríið með níu sigra í röð,” sagði hann ennfremur.
PAUC tók öll völdin í leiknum strax í upphafi og skoraði 19 mörk í fyrri hálfleik gegn 12 mörkum Trembley.
Wesley Pardin, markvörður PAUC, töfraði fram enn einn stórleikinn í markinu. Hann varði 16 skot sem jafngildir 40% hlutfallsmarkvörslu.
Donni er markahæsti leikmaður PAUC með 45 mörk, eða 4,5 mörk að jafnaði í leik sem er frábær árangur fyrir ungan mann á sínu fyrsta ári í atvinnumennsku í sterkri deild. Hann hefur ekki skorað mark úr vítakasti og er um leið markahæsti leikmaður liðsins.
Staðan í frönsku 1. deildinni:
PSG 26(13), PAUC 18(10), Limoges 17(13), Montpellier 16(10), Nantes 13(11), St. Raphaël 13(13), Chambery 10(10), Dunkerque 9(12), Toulouse 8(11), Chartes 8(10), Istres 7(9), Créteil 4(10), Ivry 3(10), Tremblay 1(11).