„Þetta var heldur betur leikur og Selfossliðið lék mjög vel og saumaði hressilega að okkur,“ sagði Elísabet Gunnarsdóttir hin þrautreynda línukona Stjörnuliðsins og aðstoðarþjálfari liðsins í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir sigur Stjörnunnar á Selfossi, 26:25, í framlengdri viðureign í undanúrslitum Powerade-bikars kvenna í handknattleik í Laugardalshöll.
Stjarnan leikur við Val í úrslitaleik Powerade-bikarsins í Laugardalshöll á laugardaginn (á morgun) klukkan 13.30.
Sendum Kötlu okkar bestu kveðjur
„Selfoss missti út einn sinn besta leikmann snemma leiks, Kötlu María Magnúsdóttur sem var mjög sorglegt og leiðinlegt. Við sendum Kötlu okkar bestu kveðjur,“ sagði Elísabet ennfremur en Katla María leikmaður Stjörnunnar fór úr vinstri ökklalið eftir liðlega 19 mínútur. Katla lék með Stjörnunni fyrir fáeinum árum.
Mikið gekk á í leiknum á síðustu mínútum venjulegs leiktíma og í framlengingunni. Sóknarleikur beggja liða var þungur og baráttan í varnarleiknum mikil. „Manni leið ekki vel fyrr en flautað var til leiksloka,“ sagði Elísabet og bætti við:
„Við hefðum þurft að gera betur. Við komum boltanum ekki á mark Selfoss á köflum í leiknum, ekki síst síðustu 15 mínúturnar og við skoruðum alls ekki.
Á hinn bóginn er sigurinn góður. Hann er okkur uppörvun eftir ekkert sérstakt keppnistímabil til þessa. Það hefði þyngt okkur róðurinn fyrir lokasprettinn í deildinni ef við hefðum tapað þessum leik. Nú snúum við okkur að undirbúningi fyrir hörkuleik við Val í úrslitum á laugardaginn þar sem allt verður lagt í sölurnar,“ sagði Elísabet Gunnarsdóttir leikmaður Stjörnunnar og aðstoðarþjálfari.
Sjö ár eru síðan Stjarnan lék síðast til úrslita í Powerade-bikarnum. Stjarnan vann þá Fram, 19:18.