„Við settum okkur það markmið fyrir fjórum árum þegar ég tók við að komast inn á EM 2024. Leiðin hefur torsótt og á stundum þrautarganga en við erum komin í mark með flottum árangri sem við eigum að vera stolt af,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna glaður í bragði í gær eftir að íslenska landsliðið innsiglaði keppnisrétt á Evrópumótinu sem fram fer í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss frá 28. nóvember til 15. desember.
Þurfti ekki fjölgun liða
„Við horfðum til þess á sínum tíma að frá og með EM 2024 yrði þátttökuliðum fjölgað úr 16 í 24. Eftir að dregið var í riðlana fyrir ári þá settum við okkur annað markmið, að tryggja okkur annað sætið í riðlinum. Þegar upp er staðið í dag höfum náð öðru sæti og náð þar með tveimur markmiðum. Staðreyndin er einfaldlega sú að vegna þess að við náðum öðru sæti riðilsins þá þurfti ekki fjölgun þátttökuliðanna til þess að við öðluðumst sæti í lokakeppninni. Þetta er söguleg staðreynd sem ég er einnig stoltur af á þessari stundu,“ sagði Arnar sem ásamt leikmönnum og aðstoðarþjálfurum hefur lagt mikla vinnu í að ná þeim árangri á komast í lokakeppni EM í fyrsta sinn í 12 ár.
Arnar segir að á sama tíma og unnið hafi verið að þessu markmiði hafi orðið talsverðar breytingar á leikmannahópnum af ýmsum ástæðum. Vegurinn hafi ekki alltaf verið beinn og breiður. „Í ljósi þessa er ég enn stoltari af árangri okkar.“
Sumarið verður mikilvægt
Þótt þátttökuréttur á EM sé í höfn segir Arnar ljóst að leikmenn megi hvergi slaka á.
„Sumarið er gríðarlega mikilvægur tími. Stelpurnar verða að nýta það mjög vel með sínum styrktarþjálfurum. Við munum vafalaust koma þar eitthvað inn með þeim. Við þurfum að koma sem best búin undir þátttökuna á Evrópumótinu í lok nóvember,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is.