Norsku meistararnir Kolstad töpuðu óvænt á heimavelli fyrir Nærbø með sex marka mun í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum norsku úrvalsdeildarinnar síðdegis í dag, 38:32, eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik, 19:17. Úrslitin eru afar athyglisverð í ljósi þess að Kolstad hefur vart tapað leik á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni í þrjú ár.
Næsta viðureign liðanna verður í Nærbø á þriðjudaginn en Norðmenn eru ekkert að haska úrslitakeppninni af. Eftir tapið eru leikmenn Kolstad komnir með bakið upp við vegg.
Sigvaldi Björn Guðjónsson og Sveinn Jóhannsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Kolstad. Arnór Snær Óskarsson skoraði eitt mark en Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði ekki mark að þessu sinni. Benedikt Gunnar átti eina stoðsendingu.
Simen Ulstad Lyse og Simon Jeppsson skoruðu sjö mörk hvor fyrir Kolstad. John Thue skoraði átta mörk fyrir Nærbø.
Í hinni viðureign undanúrslitanna eigast við Elverum og OIF Arendal. Fyrsti leikur þeirra fer fram í Elverum á morgun.