Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur staðfest leiktímana á viðureignum Íslands og Austurríkis í umspili um sæti á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í næsta mánuði. Fyrri viðureignin verður í Bregenz miðvikudaginn 13. apríl. Flautað verður til leiks klukkan 18 að staðartíma. Sumartími verður þá kominn í Evrópu en klukkunni verður flýtt um klukkustund um næstu helgi. Það þýðir að viðureignin í Bregenz hefst þegar klukkan verður fjögur eftir hádegi hér á landi.
Síðari viðureignin verður laugardaginn fyrir páska, 16. apríl á Ásvöllum í Hafnarfirði. Stefnt er á að hefja leikinn klukkan 16. Samanlögð úrslit leikjanna tveggja ræður því hvort liðið fær keppnisrétt á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Póllandi og Svíþjóð í janúar á næsta ári.
Ekki er að sjá að miðasala sé hafinn á leikinn í Bregenz 13. apríl en hún hefst örugglega fljótlega á heimasíðu austurríska handknattleikleiksambandsins.
Eins fer væntanlega að styttast í að HSÍ opni fyrir miðasölu en handbolti.is hefur hlerað að gríðarlegur áhugi sé fyrir leiknum. Talið er víst að aðgöngumiðar rjúki út eins og heitar lummur með hunangi.
Aðrar viðureignir í síðari umferð umspilsins fyrir HM:
Þýskaland – Færeyjar , 13. og 16. apríl.
Finnland – Króatía, 13. og 16. apríl.
Slóvenía – Serbía, 13. og 16. apríl.
Ísrael – Ungverjaland, 13. og 16. apríl.
Tékkland – Norður Makedónía, 13. og 17. apríl.
Grikkland – Svartfjallaland, 13. og 17. apríl.
Portúgal – Holland, 13. og 17. apríl.
Liðin sem talin eru upp á undan eiga heimaleik 13. apríl.
Dregið verður í riðla fyrir heimsmeistaramótið í Katowice í Póllandi 2. júlí.