- Auglýsing -
Óskar Ólafsson og samherjar í Drammen eru úr leik í úrslitakeppninni í handknattleik karla í Noregi. Þeir töpuðu í kvöld í þriðja sinn fyrir Arendal í undanúrslitum, 30:28. Leikið var á heimavelli Arendal, Sør Amfi. Drammenliðið vann eina viðureign í rimmunni.
Arendal leikur þar með við Elverum í úrslitum úrslitakeppninnar en sigurliðið öðlast sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð. Elverum er þegar orðinn norskur meistari eftir sigur í deildarkeppninni en niðurstaða hennar ræður þegar kemur að því að krýna landsmeistara, ekki úrslitakeppnin eins og víðast hvar.
Óskar skoraði sex mörk í leiknum í Sør Amfi í kvöld. Hinn hálf íslenski Viktor Petersen Norberg skoraði tvö mörk fyrir Drammenliðið sem hafnaði í öðru sæti í deildarkeppninni á eftir Elverum.
Með Elverum leika Íslendingarnir Aron Dagur Pálsson og Orri Freyr Þorkelsson.
Fyrsti úrslitaleikur Elverum og Arendal verður á heimavelli Elverum, Terningen Arena, 1. júní. Fjórum dögum síðar leiða liðin saman hesta sína í Sør Amfi, heimavelli Arendal.
- Auglýsing -