Lið Þórs frá Akureyri varð fyrir áföllum í gær er það mætti ÍR í 2. umferð Grill66-deildarinnar í handknattleik karla í Austurbergi. Á Facebook-síðu sinni greina Þórsarar frá því að Viðar Reimarsson og Aron Hólm Kristjánsson hafi báður farið meiddir af leikvelli og ekki komið meira við sögu. Margt bendir til þess að þeir gætu verið frá keppni um skeið vegna meiðsla.
Viðar, sem var markahæsti leikmaður Þórs í leik liðsins gegn Haukum U í fyrstu umferð með sjö mörk, fékk höfuðhögg á þriðju mínútu leiksins. Vegna þessa fékk ÍR-ingurinn Dagur Sverrir Kristjánsson rautt spjald.
Aron Hólm tognaði á nára í fyrri hálfleik og gat ekki tekið frekari þátt í leiknum af þeim sökum. Aron er með efnilegri leikmönnum Þórs og tók talsverðan þátt í leikjum liðsins í Olísdeildinni á síðasta keppnistímabili.
Eins og kom fram í frásögn handbolta.is í gær þá voru Þórsarar með yfirhöndina eftir fyrri hálfleik gegn ÍR, 20:16, en þeir misstu niður þráðinn í þeim síðari þegar ÍR-ingar skoruðu 20 mörk og unnu leikinn, 36:31.
Þór tekur á móti Kórdrengjum í þriðju umferð Grill66-deildarinnar á föstudaginn í Höllinni á Akureyri kl. 19.30.
Stöðuna í Grill66-deild karla og næstu leik má finna hér.