- Auglýsing -
- Auglýsing -

Leipzig upp í fjórða sæti eftir sætan sigur

Rúnar Sigtryggsson þjálfari Leipzig fylgist með sínum mönnum. Mynd/Klaus Trotter
- Auglýsing -

SC DHfK Leipzig, undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar, er komið upp í fjórða sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik eftir sigur á Rhein-Neckar Löwen í hörkuleik á heimavelli í kvöld, 28:27. Þetta var fyrsta tap Rhein-Neckar Löwen í deildinnni á leiktíðinni en liðið hafði unnið þrjár fyrstu viðureignir sínar.

Þýski landsliðsmaðurinn Luca Witzke skoraði síðasta mark leiksins 85 sekúndum fyrir leikslok og tryggði það sigurinn mikilvæga. Andri Már Rúnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Leipzig og átti eina stoðsendingu. Viggó Kristjánsson lék ekki með Leipzig í kvöld fremur en í tveimur síðustu leikjum. Hann er frá keppni vegna meiðsla. Staffan Peter var markahæstur með sjö mörk.

Arnór Snær Óskarsson skoraði ekki mark fyrir Rhein-Neckar Löwen að þessu sinni. Ivan Martinovic var markahæstur með níu mörk.

Þriðji sigurinn á Kiel í röð

Melsungen vann THW Kiel í þriðja sinn í röð í deildinni og í annað skiptið í beit í hafnarbænum í norður Þýskalandi, 25:21. Melsungen hefur sex stig eftir fjórar viðureignir eins og Leipzig, Rhein-Neckar Löwen og fleiri lið.

Arnar Freyr Arnarsson skoraði eitt mark fyrir Melsungen en Elvar Örn Jónsson ekkert. Lettneska heljarmennið Dainis Kristopans var markahæstur með sjö mörk og Daninn Aaron Mensing var næstur með sex mörk.

Margir leikmenn Kiel eru frá vegna meiðsla en áfram tekst að skrapa saman í lið. Daninn Emil Madsen var markahæstur með sex mörk og Svíinn Eric Johansson var næstur með fimm mörk.

Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -