Forráðamenn franska stórliðsins hafa loksins klófest mann til að hlaupa í skarðið fyrir stórstjörnuna Nikola Karabatic sem verður frá keppni næstu mánuði með slitið krossband. Í gær gekk félagið frá samningi við hollenska handknattleiksmanninn og miðjumanninn Luc Steins.
Steins kemur til PSG á leigusamningi út leiktíðina frá franska liðinu Toulouse. Steins hefur verið í sigtinu hjá PSG um nokkurt skeið en snemma í þessum mánuði reyndi PSG að fá hann lánaðan. Samningar náðust þá ekki. Eftir það sneru PSG-menn sér að slóvenanum Sebastian Skube sem leikur hjá Bjerringbro/Silkeborg en höfðu ekki erindi sem erfiði. Í framhaldinu voru kynnin endurnýjuð við Steins og loks náðist leigusamningur í gærmorgun en þá höfðu einnig verið hnýttir endar gagnvart hollenska liðinu Limburg Lions. Stein lék með Ljónunum áður en hann fór til Frakklands.
Mikilvægt skref
Samningur Steins við PSG er góð auglýsing fyrir hollenskan handknattleik sem hefur verið í mikilli sókn á undanförnum árum. „Þetta er mjög mikilvægt fyrir hollenskan karlahandbolta og getur opnað dyr fleiri eins og við þekkjum vel hér á Íslandi,“ sagði Erlingur Richardsson, landsliðsþjálfari karlalandsliðs Hollands við handbolta.is í gær.
Kemur með nýja vídd
„Steins lék frábærlega á EM í janúar auk þess sem hann var lykillinn í að koma Toulouse aftur af stað eftir erfiðleika um skeið. Ég held að hann eigi eftir að koma með nýja vídd inn í lið PSG. Það verður nóg pláss fyrir hann þegar varnarmenn þurfa að stoppa skyttur PSG,“ sagði Erlingur Richardsson, landsliðsþjálfari Hollands, sem er ánægður með vistaskiptin fyrir hönd lærisveins síns.