Alfreð Gíslason og liðsmenn hans í þýska landsliðinu hófu undankeppi EM 2026 í kvöld með öruggum sigri á nágrönnum sínum frá Sviss, 35:26, í SAP-Arena í Mannheim. Þýska liðið lék lengst af vel í fyrri hálfleik og var með átta marka forskot að honum loknum, 21:13. Lukas Zerbe leikmaður þýska landsliðsins sagði eftir leikinn í samtali við þýska fjölmiðla að liðið hafi leikið alveg eftir uppskrift Alfreðs fyrstu 20 mínúturnar áður en aðeins var slakað á. Staðan var 18:6 fyrir Þýskalandi eftir liðlega 20 mínútur.
Sigurinn og frammistaðan er léttir fyrir Þjóðverja því þótt þeir hafi fyrirfram verið álitnir sterkari þá vantaði sterka leikmenn í liðið að þessu sinni vegna meiðsla þeirra. M.a. Julian Köster og Juri Knorr.
Þjóðverjar sækja Tyrki heim til Ankara á sunnudaginn. Einnig eru Austurríkismenn í 7. riðli undankeppninnar. Þeir unnu Tyrki í Bregenz í kvöld, 31:28.
Lukas Zerbe skoraði átta mörk og var markahæstur í þýska liðinu. Johannes Golla, Sebastian Heymann og Renars Uscins skoruðu fjögur mörk hver. Lenny Rubin og markakóngur þýsku 1. deildarinnar á síðasta tímabili, Manuel Zehnder, skoruðu fimm sinnum hvor og voru markahæstur í landsliði Sviss.