Handknattleikskonan Lena Margrét Valdimarsdóttir yfirgefur Fram eftir leiktíðina og gengur til liðs við sænska úrvalsdeildarliðið Skara HF sem Aldís Ásta Heimisdóttir leikur með. Lena Margrét er 24 ára gömul örvhent skytta sem leikur stórt hlutverk með Framliðinu.
Samningur Lenu Margrétar við Skara HF er til tveggja ára eftir því sem fram kemur á heimasíðu félagsins.
Lena Margrét kom aftur til Fram fyrir tveimur árum að lokinni tveggja ára veru hjá Stjörnunni. Lena Margrét skoraði 78 mörk í 21 leik fyrir Fram í Olísdeildinni í vetur.
Skara er með öflugri liðum sænsku úrvalsdeildarinnar. Um þessar mundir er Skara í undanúrslitarimmu við Skuru um sæti í úrslitum um sænska meistaratitilinn. Skara vann fyrstu viðureignina eftir framlengingu, 34:33. Liðin mætast öðru sinni á mánudaginn í Skuru.
Önnur sem fer til Svíþjóðar
Lena Margrét er þar með önnur íslenska handknattleikskonan til þess að semja við sænskt úrvalsdeildarliði fyrir komandi tímabil. Elín Klara Þorkelsdóttir gengur til liðs við IK Sävehof í sumar.