- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Lið Donbas er væntanlegt til Vestmannaeyja

Leikmenn og þjálfara karlaliðs ÍBV. Mynd/UMFSelfoss
- Auglýsing -

Ekkert bendir til annars en að ÍBV mæti úkraínska liðinu Donbas í annarri umferð Evrópubikarkeppni karla í handknattleik í upphafi næsta mánaðar. Leikirnir hafa verið settir á dagskrá í Vestmannaeyjum 5. og 6. nóvember. Skiljanlega verður ekkert af heimaleik Donbasliðsins sem er með bækistöðvar í Maríupól sem um þessar mundir er hernumin af rússneska innrásarhernum.


Í stað þess að leika heimaleik sinn í nágrannalöndum Úkraínu óskaði talskona félagsins sem verið hefur í sambandi við Eyjamenn eftir að leika heimaleikinn í Vestmannaeyjum.


Vilmar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV, sagði í samtali við handbolta.is í morgun að nokkurn tíma hafi tekið að komast í samband við forráðamenn Donbas. Fyrst hafi hann komist í samband við umboðsmann liðsins sem staddur er í Þýskalandi en síðar hafi fulltrúi forseta félagsins haft samband við sig. Eftir það hafi hjólin tekið að snúast sem lauk með samkomulagi um að leiddar verði lyktir beggja leikja í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum 5. og 6. nóvember.

Annað kom ekki til greina

„Þeir báðu okkur að taka á móti liðinu og fá að leika heimaleikinn hjá okkur. Í ljósi aðstæðna kom að sjálfsögðu ekkert annað til greina en að koma til móts við óskir þeirra og bjóða liðið velkomið til Vestmannaeyja. Talskona félagsins sem verið hefur í tölvupóstsamskiptum við mig fyrir hönd forseta félagsins var mjög þakklát. Svo á eftir að koma í ljós hvernig gengur að komast frá Úkraínu og til okkar. Við vonum það besta fyrir þeirra hönd en þau mál skýrast þegar nær dregur leikdögum,“ sagði Vilmar Þór sem hefur undir höndum ferðaáætlun liðsins.


Donbasliðið sat yfir í fyrstu umferð Evrópubikarkeppninnar á sama tíma og ÍBV lék við og vann HC Holon frá Ísrael í tveimur viðureignum í Vestmannaeyjum fyrir um mánuði.

Grikkir koma um aðra helgi

Áður en að leikjum karlaliðs ÍBV við Donbas kemur mætir kvennalið ÍBV gríska liðinu OFN Ionias í tvígang í Evrópubikarkeppnni um aðra helgi. Báðir leikir fara fram í Vestmannaeyjum. Eftir fjóra leiki við tvö grísk lið í Evrópubikarkeppni kvenna á síðasta tímabili eru Eyjamenn orðnir góðkunningjar grísks handknattleiksleiks. „Það er mjög gott að eiga samskipti við Grikki. Þeir eru með allt sitt á hreinu,“ sagði Vilmar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -