Þýska liðið Flensburg og svissneska meistaraliðið Kadetten Schaffhausen féllu bæði úr leik í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik í kvöld. Íslendingar eru innan raða beggja liða. Flensburg tapaði með átta marka mun á heimavelli fyrir spænska liðinu Granollers, 35:27, og samanlagt 65:58, eftir eins marks sigur á Spáni fyrir viku.
Tapið er áfall fyrir Flensburg sem verður gestgjafi úrslitahelgar Evrópudeildarinnar í næsta mánuði þegar leikið verður til undanúrslita og úrslita.
Granollersliðið var mun sterkara í leiknum í Flens-Arena í kvöld og hafði m.a. fjögurra marka forskot að loknum fyrri hálfleik. Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk fyrir Flensburg og átti eina stoðsendingu.
Fyrirfram var vitað að allt þyrfti að ganga upp hjá Kadetten Schaffhausen til þess að komast í undanúrslit. Liðið vann með fjögurra marka mun á heimavelli fyrir viku. Topplið þýsku 1. deildarinnar, Füchse Berlin, gaf ekkert eftir i Max Schmeling Halle í Berlin í kvöld. Lukkan var á bandi liðsins á spennandi lokakafla og sex marka sigur var staðreynd, 30:24, og samanlagt, 63:61.
Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur, nánast að vanda, hjá Kadetten. Hann skoraði sex mörk og er sem fyrr markahæsti maður Evrópudeildarinnar. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten út leiktíðina þegar hann tekur við þýska liðinu GWD Minden.
Auk Füchse Berlin og Granollers komust Göppingen, sem sló Val út í 16-liða úrslitum, og franska liðið Montpellier í undanúrslit.
Göppingen vann Nexe í Króatíu, 31:27, og samanlagt 63:50. Montpellier marði Sporting í Frakklandi í kvöld, 31:30, og samanlagt með eins marks mun, 63:62.