Kvennalið Selfoss tekur á laugardaginn í fyrsta sinn þátt í Evrópukeppni og fylgir þar með í kjölfar karlaliðs félagsins sem oft hefur verið með á undangengnum áratugum. Selfoss mætir gríska liðinu AEK í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar á laugardaginn í Maroussi í Aþenu. Viðureignin hefst klukkan 15.
Selfoss-liðið leitar eftir áheitum frá einstaklingum og fyrirtækjum vegna þátttökunnar.
Selfossliðið fór af landi brott í dag og hefur morgundaginn til þess að búa sig undir fyrri viðureignina.
Síðari leikurinn verður í Sethöllini á Selfossi sunnudaginn 5. október.

Áheitum safnað
Þátttaka í Evrópukeppni kostar skildinginn eins og áður. Selfossliðið hefur m.a. farið þá leið í fjáröflun að leita eftir áheitum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Gefst þeim kostur á að heita ákveðinni fjárhæð á hvert mark sem Selfoss skorar í leikjunum tveimur við AEK Aþenu eftir því fram kemur á Facebook-síðu Selfoss – handbolti.
Hér fyrir neðan er hlekkur sem smella má á til þess að styðja Selfoss-liðið:
https://www.selfoss.net/is/abendingar/evropuaheit-handbolti