„Það verður bara gaman að spila á móti færeyska liðinu aftur. Við höfum mætt þeim oft á síðustu árum og þar á meðal tvisvar á stuttum tíma. Liðin þekkjast vel og ég reikna með skemmtilegum leik,“ segir Thea Imani Sturludóttir landsliðskona sem leikur sinn 98. landsleik í kvöld þegar íslenska landsliðið mætir því færeyska í síðasta leik beggja landsliða á HM kvenna í handknattleik 2025.
„Það er klárt mál að færeyska liðið hefur töluvert sjálfstraust um þessar mundir eftir leikina á HM. Hins vegar hefur hver leikur sitt líf því maður hver inn í hvern leik eins og nýtt verkefni.
Við vitum líka hvar við stöndum og hvað við getum. Við spáum því mest í okkur sjálfar. Það væri geggjað að klára mótið á sigri,“ segir Thea Imani sem segir góðan anda vera í liðinu fyrir síðasta leikinn á HM 2025.
„Þátttakan á HM er fínt verkefni þrátt fyrir svekkelsi hér og þar. Við lítum bara til þeirra framfara sem hópurinn hefur tekið og erum staðráðnar í að stíga fleiri framfaraskref áður en þátttöku okkar lýkur,“ segir Thea Imani Sturludóttir landsliðskona sem leikreyndust leikmenn íslenska landsliðshópsins á HM 2025.
- Viðureign Íslands og Færeyja hefst klukkan 19.30 í Westfalenhalle í Dortmund. M.a. verður fylgst með leiknum á handbolti.is.
Sögulegur leikur frændþjóða í Westfalenhalle í kvöld



