- Auglýsing -
- Auglýsing -

Línur eru teknar að skýrast

Kari Brattset Dale og félagar í Györ eru komnar í átta liða úrslit Meistaradeildar. Mynd/EPA
- Auglýsing -

12. umferð Meistaradeildar kvenna fór fram um helgina. Eftir hana eru línur teknar að skýrast um það hvaða lið fara áfram í útsláttarkeppnina og hlaupa yfir þá umferð og taka sæti í 8-liða úrslitum.


Brest tók á móti Dortmund þar sem að franska liðið hafði betur, 31-25, og er nú búið að vinna sex heimaleiki í röð í Meistaradeildinni.


FTC og Rostov-Don áttust við í Ungverjalandi þar sem boðið var uppá sannkallaðan naglbít. Ungverska liðið var tveimur mörkum undir þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum. Líkt og oft áður í Meistaradeildinni þá náði FTC góðum lokakafla. Gabor Elek sýndi snilli sína og FTC náði að jafna metin, 25-25, áður en leiktíminn var úti.


Buducnost tók á móti Esbjerg þar sem að nokkurt jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Danska liðið sýndi styrk sinn í seinni hálfleik og vann öruggan ellefu marka sigur, 36-25, og tryggði sér þar með sæti í 8-liða úrslitum.


Í lokaleik A-riðils áttust við CSM og Podravka á heimavelli CSM þar sem að rúmenska liðið vann, 29-21. Þetta var ellefti tapleikur Podravka í röð.


Krim, sem er í mikilli baráttu um að ná sæti í útsláttarkeppninni, tók á móti Kastamonu á heimavelli sínum. Slóvenska liðið Krim hafði betur og vann með átta marka mun, 36-28.


Metz og Vipers áttust við í Noregi en þessi lið eru í harðri baráttu um annað sætið í B-riðli. Franska liðið hafði betur, 31-25, og batt þar með enda á sex leikja sigurgöngu Evrópumeistaranna.


Það var boðið uppá Norðurlandaslag í Óðinsvéum þegar að Odense tók á móti Sävehof. Heimaliðið reyndist mun sterkara og vann með 13 marka mun, 37-24, og tryggðu sér þar með sæti í útsláttarkeppninni.


Györ hélt sigurgöngu sinni áfram. Að þessu sinni lagði ungverska stórveldið liðsmenn CSKA í leik í Moskvu, 27-23. Þetta var síður en svo auðveldur leikur fyrir Györ. Munurinn lá einna helst í markvörslunni. Markverðir Györ vörðu 13 skot en kollegar þeirra hinum megin vallarins vörðu 9 skot.


A-riðill:
Brest 31-25 Dortmund (17-10)

  • Dortmund mætti aðeins með 13 leikmenn til leiks og var liðið m.a. án Alinu Grijseels. Dortmund náði aðeins að veita heimaliðinu keppni á fyrstu 10 mínútunum.
  • Brest náði 5-0 kafla frá og með fjórtándu mínútu og komust fimm mörkum yfir, 9:4.
  • Franska liðið skoraði 27,6 mörk að meðaltali í fyrstu níu leikjunum í Meistaradeildinni en hefur nú heldur betur bætt í markaskorið í síðustu þremur leikjum. Meðaltalið er komið upp í 33,3 mörk.
  • Það eru allar líkur á því að Dortmund endi í sjötta sæti riðilsins og mæti liðinu í þriðja sæti í B-riðli í útsláttarkeppninni.
  • Þetta var fjórði sigurleikur Brest í röð í Meistaradeildinni en Dortmund hefur hins vegar tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum.

FTC 25-25 Rostov-Don (13-13)

  • Það munaði aldrei meira en þremur mörkum á liðunum í leiknum.
  • FTC hefur gert 15 jafntefli í Meistaradeildinni, þar af þrjú á þessu keppnistímabili. Iuliia Managarova, Grace Zaadi og Kristina Kozhokar skoruðu 18 mörk af 25 mörkum Rostov-Don.
  • Gréta Márton jafnaði metin, 24-24, þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum. Um var að ræða 5.500. mark FTC í Evrópukeppni.
  • Varnarleikur Rostov var enn á ný öflugur en eins og oft áður í vetur varð sóknarleikurinn og markvarslan liðinu að falli. Anastasiia Lagina og Galina Gabisova vörðu aðeins sex skot og voru samanlagt með 19% hlutfallsmarkvörslu.

Buducnost 25-36 Esbjerg (13-14)

  • Þrátt fyrir að vera án lykilleikmanna eins og Estvönu Polman, Marit Malm Frafjord og Vilde Ingstad náðu Esbjerg að vinna sinn áttunda leik í röð.
    Buducnost hefur nú sett vafasamt félagsmet yfir flesta tapaða leiki í Meistaradeildinni á einni leiktíð. Tapið fyrir Esbjerg var það ellefta á keppnistímabilinu.
  • Línumaðurinn Kaja Kamp Nielsen var markahæst í liði Esbjerg í leiknum með átta mörk.
  • Danska liðið hefur tryggt sér toppsætið í A-riðli og þar með sæti í 8-liða úrslitum.
  • Esbjerg var aðeins einu marki frá því að jafna met sitt yfir flest skoruð mörk í einum leik. Metið er 37 mörk gegn Bietigheim í febrúar 2021.

CSM 29-21 Podravka (19-10)

  • Þetta var 11. tapleikurinn í röð hjá króatíska liðinu í Meistaradeildinni. Það er næst versti árangur liðsins í keppninni.
  • CSM náði 14-5 kafla undir lok fyrri hálfleiks og fór með níu marka forystu inní hálfleikinn, 19-10. Þann mun náði Podravka aldrei að vinna upp.
  • CSM gaf ungum leikmönnum tækifæri að þessu sinni. Andreea Ailincai (18 ára), Angela Stoica (18 ára), Alicia Gogirla (19 ára) og Diana Finaru (20 ára) þökkuðu allar traustið og skoruðu 2 mörk hver.
  • Dijana Mugosa og Dejana Milosavljevic skoruðu 13 af 21 marki Podravka í leiknum.

B-riðill:
Krim 36-28 Kastamonu (18-10)

  • Krim tók frumkvæðið snemma leiks og vó þungt framlag Katarinu Krpez-Slezak. Slóvenska liðið náði 4-0 kafla og breytti stöðunni úr 6-5 í 10-5.
  • Barbara Arenhart, markvörður Krim, var með 44 % markvörslu í hálfleiknum og átti einnig stóran þátt í að slóvenska liðið var með átta marka forystu í hálfleik.
  • Þegar ellefu mínútur voru eftir af leiknum var Krim með örugga forystu, 29-18.
    Jovanka Radicevic skoraði 7 mörk og Milena Raicevic 6 mörk. Þær stóðu uppúr í liði Kastamonu að þessu sinni.
  • Krim er með sjö stig í riðlinum, einu meira en Sävehof sem er í sjöunda sæti. Kastamonu er á botni riðilsins án stiga eftir 12 leiki.

Vipers 25-31 Metz (13-17)

  • Metz byrjaði leikinn af miklum krafti og eftir aðeins níu mínútna leik var liðið komið yfir, 6-0.
  • Eftir að Marketa Jerabkova tókst að skora fyrsta mark Vipers í leiknum hresstust leikmenn til muna og tókst að minnka muninn niður í eitt mark, 7-6. Þá kom 5-1 kafli hjá franska liðinu sem fór með fjögurra marka forystu í hálfleik.
  • Evelina Eriksson kom í markið hjá norska liðinu í seinni hálfleik. Hún gerði allt hvað hún gat til þess að hjálpa liðinu og var með 41% markvörslu í hálfleiknum.
  • Þrátt fyrir góða frammistöðu Eriksson í markinu lét Metz forystu sína ekki af hendi.
  • Með sigrinum er Metz komið með 16 stig, jafnmörg og Vipers. Metz á einn leik til góða.

Odense 37-24 Sävehof (16-13)

  • Heimakonur náðu snemma forystu og eftir átta mínútna leik var staðan orðin 6-2 þeim í vil.
  • Gestirnir neituðu að gefast upp og náðu 4-1 kafla og komust yfir, 11-10. Sofie Börjesson átti stóran þátt í þessum viðsnúningi. Hún varði 10 skot í fyrri hálfleik.
  • Heimakonur byrjuðu seinni hálfleikinn af sama krafti og þær luku þeim fyrri og náðu 8-2 kafla á upphafs mínútum seinni hálfleiks.
  • Martina Thörn markvörður Odense múraði hreinlega fyrir markið. Hún var með 48% markvörslu í leiknum. Lois Abbingh liðsfélagi hennar var markahæst með átta mörk.
  • Þessi sigur þýðir að Odense er komið í fimmta sæti riðilsins með 13 stig.
    Sävehof er hins vegar í sjöunda sæti. Liðsins bíður hörð barátta um að ná sæti í útsláttarkeppninni.

CSKA 23-27 Györ (13-15)

  • CSKA náði 2-0 forystu en eftir það var jafnt á öllum tölum.
  • Í stöðunni 13-13 náði ungverska liðið að skora 2 mörk í röð og fóru með 15-13 forystu inní hálfleikinn.
  • Gestirnir létu þá forystu aldrei af hendi í seinni hálfleik. Í stöðunni 18-17 náði Györ 4-1 kafla og tryggði sér þar með sigur í leiknum.
  • Ryu Eun Hee var markahæst í liði Györ með sjö mörk. Hjá CSKA var Ekaterina Ilina markahæst með átta mörk.
  • Györ, sem hefur nú þegar tryggt sér sæti í 8-liða úrslitum, er enn með fullt hús stiga eða 24 talsins. CSKA féll niður í fimmta sæti riðilsins með 12 stig.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -