- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Guðmundur:„Líst bara vel á“

Fagnað á EM í Svíþjóð á EM 2020. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Mér líst bara vel á riðilinn,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans strax og dregið hafði verið í riðla á heimsmeistaramótinu í handknattleik í kvöld.

Íslenska landsliðið verður í riðli F með landsliðum Portúgal, Alsír og Marokkó. „Við þekkjum Portúgal vel. Landslið þeirra lék mjög vel á EM ársbyrjun og hafnaði í fimmta sæti. Við reyndar unnum leikinn við þá þar. Hinsvegar verð ég að játa að ég þekki minna til Alsír og þá sérstaklega landslið Marokkó en það er þó ljóst að tvö síðarnefndu liðin leika handknattleik sem við erum ekki vanir. Þess vegna er rík ástæða til þess að vanmeta þau ekki. Það felst ögrun í að mæta þjóðum sem leika íþróttina á annan hátt en við eigum að venjast,“ sagði Guðmundur Þórður.

Þrjú af fjórum liðum riðilsins komast áfram í milliriðlakeppni mótsins þar sem ljóst er að andstæðingar íslenska liðsins verða lið úr E-riðli, þ.e. komist íslenska liðið áfram, annað væri reyndar slys, þá bíða landslið Noregs, Austurríkis, Frakklands og/eða Mið-Ameríku en þau skipa E-riðil.

„Auðvitað á maður aldrei að velta of mikið fyrir sér framhaldinu á þessu stigi málsins en það er þó alveg ljóst að í milliriðlakeppninni bíða mjög sterk lið. Það er svosem bara eðlilegt þegar komið á heimsmeistaramót að andstæðingarnir séu sterkir. Það þýðir ekkert að tala um að maður hefði frekar viljað mæta liðum úr þessum eða hinum riðlinum. Þetta er einfaldlega staðan þegar maður er kominn á HM, þá eru allir andstæðingar sterkir. Spurningin er bara sú hvort þú mætir þeim fyrr eða síðan í mótinu,“ sagði Guðmundur Þórður.

„Á heildina litið þá líst mér vel á það sem okkar bíður á HM í Egyptalandi,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla við handbolta.is í kvöld.

Íslenska landsliðið kemur næst saman í byrjun nóvember til tveggja fyrstu leikja sinna í undankeppni EM 2022. Annarsvegar gegn Litháen í Laugardalshöll og fjórum dögum síðar leikur það við Ísrael ytra.

Riðlaskiptingin er eftirfarandi:

A-riðill:  Þýskaland (Alfreð Gíslason er þjálfari), Ungverjaland, Úrúgvæ, Grænhöfðaeyjar.

B-riðill:  Spánn, Túnis, Brasilía, Pólland.

C-riðill:  Króatía, Katar, Japan (Dagur Sigurðsson er þjálfari), Angóla.

D-riðill:  Danmörk, Argentína, Barein, Kongó

E-riðill:   Noregur, Austurríki, Frakkland, Mið-Ameríka.

F-riðill:    Portúgal, Alsír, Ísland, Marokkó.

G-riðill:   Svíþjóð, Egyptaland, Tékkland, S-Ameríka.

H-riðill:    Slóvenía, Hvíta-Rússland, Kórea, Rússland.

Riðlakeppni mótsins stendur yfir frá 13. – 19. janúar en í henni verður leikið í átta fjögurra liða riðlum. Þrjú af fjórum liðum hvers riðils komast í milliriðlakeppni sem fram fer í fjórum sex liða riðlum frá 20. – 25. janúar. 

Komist íslenska landsliðið áfram í millriðla mætir það þremur liðum úr E-riðli.

Tvö efstu liðin í hverjum af milliriðlunum fjórum tryggja sér sæti í átta liða úrslitum 27. janúar í fjórum viðureignum. Sigurliðin halda áfram í undanúrslit tveimur dögum síðar. Loks verður leikið um verðlaun sunnudaginn 31. janúar í stóru íþróttahöllinni í Kaíró.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -