Portúgal vann öruggan sigur á landsliði Litháen í fjórða riðli undankeppni EM2022 í karlaflokki í dag, 34:26, en leikið var í Siemens Arena í Vilnius. Liðin eru með íslenska landsliðinu í riðli í undankeppninni. Portúgal hefur þar með fjögur stig í efsta sæti og mætir íslenska landsliðinu í næstu umferð, 6. og 10. janúar, gangi áætlanir eftir.
Litháum tókst að byrja leikinn gegn Portúgal betur en þeir gerðu gegn íslenska landsliðinu í Laugardalshöll á miðvikudagskvöld. Þeir voru engu að síður alltaf í humátt á eftir landsliði Portúgal. Aðeins var tveggja marka munur að loknum fyrri hálfleik, 14:12. Portúgalska liðið bætti heldur í forskot sitt í síðari hálfleik og vann öruggan sigur eins og fyrr sagði.
Jonas Truchanovicius og Gerdas Babarskas sem Litháar söknuðu talsvert í viðureigninni hér í Reykjavík á miðvikudagskvöld gátu verið með í dag.
Mindaugas Urbonas skoraði fimm mörk fyrir Litháa og var þeirra markahæstur. Aidenas Malasinskas, fyrrgreindur Truchanovicius Mindaugas Dumcius, Valas Drabavicusu Derdas Babarskas og Zanas Gabrielius Virbauskas skoruðu þrjú mörk hver.
Pedro Portela var iðnastur við að skora mörk fyrir Portúgal. Hann skoraði fimm sinnum. Daymaro Salina Amador, Victor Manuel Iturrizia Alvarez og Andre Gomes skoruðu fjögur mörk hver.
Hér skorar Truchanovicius eitt marka sinna í leiknum í dag.