- Auglýsing -
„Mjög ánægður með sigur í fyrst leik enda er alltaf betra að vinna leiki en tapa,“ sagði Stefán Arnarson þjálfari deildarmeistara Fram í handknattleik kvenna eftir nauman sigur á Val í fyrsta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í Framhúsinu í gær.
„Mér fannst við hafa yfirhöndina í leiknum frá upphafi. Undantekningin var þegar Valur komst marki yfir, 22:21. Þá vorum við manni færri en í þeirri stöðu vann Þórey Rósa boltann og við fengum hraðaupphlaup. Karen vann síðan boltann í kjölfarið, við náðum öðru hraðaupphlaup og við komumst yfir á ný. Þessi atriði voru vendipunktur í leiknum,“ sagði Stefán en hans lið vann leikinn með eins marks mun, 28:27. Fram var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi að því undanskildi að Valur komst yfir, 2:1, og 22:21, eins og Stefán bendir á.
„Valur er með frábært lið sem ekki er auðvelt að vinna. Þar af leiðandi er ég mjög ánægður með þennan sigur.
Þegar upp verður staðið held ég að það verði litlu atriðin sem skilji liðin að í leikjum þessa einvígis. Ég vona að leikurinn í kvöld sé forsmekkurinn að því sem vænta megi á næstunni. Hinsvegar gerist það oft í úrslitaeinvígjum að annað liðið vinnur stórsigur. Þess vegna má búast við öllu,“ sagði Stefán yfirvegaður að vanda.
Næsti úrslitaleikur Fram og Vals verður á heimavelli Vals á mánudagskvöld klukkan 19.30.
- Auglýsing -