- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ljúft að ljúka keppnistímabilinu á þennan hátt

Leikmenn Kríu fagna þegar sæti í Olísdeildinni var í höfn. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

„Mér er hreinlega orðavant. Ég veit ekki hvað ég að segja eftir allt saman,“ sagði Lárus Gunnarsson, þjálfari Kríu, við handbolta.is í gærkvöld eftir að liðið tryggði sér sæti í Olísdeild karla á næstu leiktíð. Kría vann þá Víking öðru sinni í umspilsleikjum um sætið góða.

„Tímabilið hefur verið langt, þungt  og erfitt með mörgum sóttvarnarstoppum. Margt af því sem við ætluðum að gera hefur ekki verið hægt að koma í framkvæmd. Þess vegna er hrikalega ljúft að ljúka keppnistímabilinu á þennan hátt,“ sagði Lárus en eins og nærri má geta þá var kátt á hjalla í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í gærkvöld þegar loksins mátti nokkur fjöldi áhorfenda sækja leik Kríuliðsins.

„Spennustigið var hátt hjá báðum liðum í þessum leik. Við skoruðum aðeins  sjö mörk í fyrri hálfleik en náðum að koma meiri ró á leik okkar í síðari hálfleik. Um leið batnaði sóknarleikurinn. Vörnin var mjög góð frá byrjun. Við vissum að ef hún væri traust myndi Siggi markvörður taka það sem vantaði upp á.“

Tvær æfingar í viku

„Ég vil ekki hljóma hrokafullur en deildarkeppnin gaf ekki rétta mynd af getu okkar. Kría er lið sem hefur æft tvisvar í viku og er skipað leikmönnum sem æfa á sínum forsendum til þess að hafa gaman af, ekki af skyldurækni. Þar af leiðandi hefur öll röskun sem hefur orðið á æfingum og keppni í vetur gert okkur mjög erfitt fyrir. Um tíma voru átta menn á sjúkralista og utan hóps og oft náðum við varla saman í lið.

Lárus Gunnarsson, þjálfari Kríu við hliðarlínuna. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

Eftir síðasta stóttvarnastopp í mars vissum við að framundan væri þátttaka í umspili hvernig sem síðustu leikir færu hjá okkur. Þar með lögðum við áherslu á að vera með allan hópinn tilbúinn í slaginn þegar að umspilinu kæmi.“

Getan var fyrir hendi

„Við náðum þremur leikjum í deildarkeppninni í vetur með fullmönnuðu liði þar sem okkur tókst að sýna okkar rétta andlit. Meðal annars gegn HK á útivelli þar sem við náðum tíu marka forskoti þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.  Við vissum að getan væri fyrir hendi. Spurningin var meira að vera með alla leikmenn tilbúna þegar út í umspilið kæmi. Þá væru okkur hugsanlega allir vegir færir,“ sagði Lárus sem segir að hann ásamt tveimur öðrum liðsmönnum standi á bak við liðið.

Mynd/Eyjólfur Garðarsson.

Gamall draumur vina

„Í fyrra vorum við í annarri deild og höfðum gaman af. Hinsvegar hefur okkur nokkrum félögum af  Seltjarnarnesi lengi dreymt um okkar eigin handboltalið. Þegar við vorum yngri stofnuðum við lið og ætluðum á Partille Cup í Svíþjóð en fengum ekki leyfi til þess. Alla tíð hefur okkur langað til að láta drauminn verða að veruleika. Í fyrra ákváðum við að láta slag standa og sjá til hvað gerðist. Í liðinu eru margir leikmenn sem vilja æfa handbolta á eigin forsendum en ekki fengið vettvang til þess. Nú er staðan sú að við erum komnir í hóp bestu liða landsins og tökum þátt í Olísdeildinni á næsta keppnistímabili.“

Lokadansinn?

„Það sýnir hvað er hægt að gera og um leið undirstrikar að ekki þarf alltaf að fara eftir sömu uppskriftinni. Við ákváðum að bjóða upp á nýjan vettvang þar sem við félagar mynduðum kjarnann. Hvort þetta verður lokadansinn eða ekki er mér alveg sama um á þessari stundu,“ sagði Lárus Gunnarsson, þjálfari Kríu.

Kristján Orri Jóhannsson og Sigurður Ingiberg Ólafsson leikmenn Kríu fagna með stuðningsmönnum liðsins í leikslok í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í gærkvöld. Grímunotkun fór fyrir ofan garð og neðan í fögnuðinum. Mynd/Eyjólfur Garðarsson.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -