Erlingur Richardsson þjálfari karlaliðs ÍBV sagði eftir tíu marka tap fyrir Val, 35:25, að hans menn hafi ekki verið yfirspenntir þegar þeir hófu leikinn. E.t.v. hafi þeir ekki verið nógu spenntir, verið of værukærir fremur en hitt.
„Við vorum að minnsta kosti ekki í sama rytma og í leikjunum á undan við Hauka. Við misstum boltann oft mjög illa og síðan varði Bjöggi mjög vel í marki Valsara. Þar með fengu Valsarar hraðaupphlaupin sín. Við lentum í vandamálum,“ sagði Erlingur við handbolta.is í Origohöllinni.
ÍBV var 13 mörkum undir eftir fyrri hálfleikinn, 22:9. Að loknum 10 mínútum var Valur þegar orðinn sjö mörkum á undan, 9:2.
Ljótur leikur – óskýr lína
„Okkur tókst aðeins aðeins að koma til baka í síðari hálfleik og taka þátt í leiknum sem var oft og tíðum ljótur leikur. Mikið var um bakhrindingar svo dæmi sé tekið,“ sagði Erlingur sem var ekki hrifinn af dómgæslunni hjá Ramunas Mikalonis og Þorleifi Árna Björnssyni.
„Mér fannst línan frekar óskýr. Við fengum til dæmis gult spjald við fyrsta aukakast,“ sagði Erlingur sem nefndi í samtali við visir.is eftir leikinn að þörf væri á þriðja dómaranum í handknattleikinn, líkt og er í körfuknattleik.
Vorum slakir
„Við vorum líka slakir. Ekki bætti úr skák að við misstum Rúnar [Kárason] út snemma. Við eigum eftir að skoða hvað verður með hann. Tognun á kálfa er alltaf slæm. Þar af leiðandi er ekki gott að segja hver staðan er núna. Auk þess erum við að koma Sidda [Sigtryggur Daði Rúnarsson] af stað aftur eftir meiðsli. Við erum þar af leiðandi í púsluspili,“ sagði Erlingur ennfremur og bætti við.
Hart barist á sunnudaginn
„Ég skal lofa því að það verður hart barist í Eyjum á sunnudaginn í næsta leik liðanna,“ sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, í samtali við handbolta.is í gærkvöld.