- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Lukkudísirnar voru með Valsmönnum á Varmá

Benedikt Gunnar Óskarsson er nú leikmaður norsku meistarana Kolstad. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Lukkudísirnar voru í liði með Íslands- og bikarmeisturum Vals þegar þeir kræktu í annað stigið í heimsókn sinni til Aftureldingar í kvöld í 12. umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Lokatölur 30:30 en Valur var tveimur mörkum undir þegar innan við mínúta var til leiksloka.


Arnór Snær Óskarsson minnkaði muninn í eitt mark 30:29 þegar hann skoraði úr vítakasti þegar hálf mínúta var eftir. Aftureldingarmenn hófu þá sókn en tókst afar óhönduglega upp við það. Benedikt Gunnar Óskarsson vann af þeim boltann en í sömu mund óskaði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar eftir leikhléi. Tíminn var stöðvaður þegar Benedikt átti greiða leið að marki Aftureldingar.

Uppnám ríkti

Upp úr þessu öllu saman varð hinn mesti hasar þar sem stór orð voru látin falla víðsvegar, uppnám virtist ríkja á tímavarðaborðinu, meðan reynt var að komast að því hvort Benedikt hafi unnið boltann áður eða eftir að merki var gefið um leikhlé. Jónas Elíasson og Ramunas Mikalonis dómarar funduðu með Guðjóni L. Sigurðssyni, hinum þrautreynda eftirlitsmanni. Vittist úr vöndu að ráða enda ekkert VAR-á leiknum og þar af leiðandi ekki hægt að styðjast við varsjána góðu.


Niðurstaðan varð sú að Benedikt hafði unnið boltann áður en merkið var gefið. Merkið eða flautið gildir en ekki hvenær græna tímaspjaldið er lagt á borðið.

Valur fékk vítakast

Valur fékk þar með vítakast þar sem Benedikt hafði verið rændur möguleika á að jafna metin þegar leiktíminn var stöðvaður. Arnór Snær jafnaði metin úr vítakastinu, 30:30. Aftureldingarmenn tóku þá áður umbeðið leikhlé. Það sem lagt var upp dugði ekki til að skora sigurmarkið. Niðurstaðan jafntefli.

Röng ákvörðun?

Af upptöku frá leiknum að dæma virðist vera sem tekin hafi verið röng ákvörðun, þ.e. merki um leikhlé virðist hafa verið gefið andartaki áður en Benedikt var svo útsjónarsamur að vinna boltann af Mosfellingum.

Rautt spjald á lofti

Snorra Steini Guðjónssyni þjálfara Vals rann í skap í hasarnum undir lokin og fékk að súpa seyðið af því með því að fá rautt spjald þegar leiktíminn var úti og dómararnir gátu greitt úr óuppgerðum málum. Snorri var langt í frá sá eini sem rann í skap í þeim flækjum sem komu upp á síðustu sekúndunum.

Besta skemmtun

Fyrir utan það sem gekk á síðustu 30 sekúndunum á Varmá í kvöld þá var leikurinn hin besta skemmtun. Valur var lengst af með frumkvæðið. Mosfellingar voru aldrei langt undan og tókst að komast yfir, 28:27, með marki frá Þorsteini Leó Gunnarssyni þegar sjö mínútur voru eftir. Í framhaldinu fékk Afturelding þrjár sóknir til þess að auka forskot sitt en allt kom fyrir ekki. M.a. fór vítakast Árna Braga Eyjólfssonar forgörðum.

Þorsteinn Leó var frábær

Þorsteinn Leó var frábær í leiknum og skoraði tvö síðustu mörk Aftureldingar sem dugði liðinu ekki til sigurs. Alls gerði piltur 11 mörk í 16 skotum. Reyndar má vel velta fyrir sér hvort Þorsteinn Léo eigi ekki meira erindi í 35 manna landsliðshópinn fyrir HM en ýmsir aðrir sem þar eru.

Eins varði Jovan Kukobat afar vel þegar mest á reyndi á lokakaflanum.

Með ólíkindum

Það er reyndar með ólíkindum hvað Valsmenn halda dampi eftir allt álagið sem hefur verið á leikmönnum síðustu vikur. Ekki voru allir með í kvöld og einhverjir heltust úr lestinni í leiknum. Sigurviljinn er sterkur.


Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Leó Gunnarsson 11, Árni Bragi Eyjólfsson 6/3, Ihor Kopyshynskyi 5, Blær Hinriksson 3, Einar Ingi Hrafnsson 3, Birkir Benediktsson 1, Gestur Ólafur Ingvarsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 12, 31,6% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 1, 20%.
Mörk Vals: Arnór Snær Óskarsson 8/5, Vignir Stefánsson 6, Aron Dagur Pálsson 4, Bergur Elí Rúnarsson 4, Róbert Aron Hostert 3, Agnar Smári Jónsson 1, Tryggvi Garðar Jónsson 1, Þorgils Jón Svölu Baldursson 1, Finnur Ingi Stefánsson 1, Benedikt Gunnar Óskarsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 13/1, 30,2%.

Staðan í Olísdeild karla:

Valur131111445 – 37223
FH12822366 – 35018
Afturelding13733393 – 36917
Fram13634388 – 38115
ÍBV12624401 – 37214
Stjarnan12534353 – 34313
Haukar12516363 – 34711
Selfoss12516353 – 36611
Grótta11335302 – 3029
KA12336346 – 3649
ÍR12219334 – 4035
Hörður120111354 – 4291
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -