Katrine Lunde, landsliðsmarkvörður heims-, Evrópu- og ólympíumeistari Noregs í handknattleik kvenna, var valin íþróttanafn Noregs (Årets navn), fyrir árið 2025. Valið var tilkynnt á Idrettsgallaen 2026 sem fram fór í Noregi í dag. Idrettsgallaen er uppgjörshátíð norska íþróttasambandsins. Årets navn er æðsta viðurkenningin sem veitt er á Idrettsgallaen ár hvert en nafnbótin getur fallið einstaklingum í skaut jafnt sem íþróttaliðum.
Lunde, sem er 45 ára gömul, hefur í nærri aldarfjórðung verið ein af fremstu markvörðum heims í kvennahandknattleik. Hún ákvað að hætta að leika með landsliðinu eftir að hún varð heimsmeistari í síðasta mánuði. Lunde hefur ekki útilokað að halda áfram að verja mark félagsliðs en hún er án samnings um þessar mundir.
Lunde vann 21 verðlaun með landsliðinu, þar af 13 sinnum gullverðlaun auk 29 gullverðlauna með félagsliðum.
Meðal annarra sem tilnefndir voru í valinu á „årets navn“ má nefna fótboltamanninn Erling Braut Haaland og frjálsíþróttamanninn Jakob Ingebrigtsen, norska landsliðið í knattspyrnu karla, sem tryggði sér sæti á HM eftir áratuga þrautargöngu, og heimsmeistara Noregs í handknattleik kvenna. Alls voru 16 einstaklingar og lið tilnefnd.
Herrem er fyrirmynd ársins
Handknattleikskonan Camilla Herrem var valin fyrirmynd ársins (årets forbilde) í norskum íþróttum 2025. Herrem greindist með krabbamein í vor og hefur síðan verið mjög opinská um veikindi sín og líðan og um leið veitt mörgum styrk sem standa í sömu sporum. Herrem hóf æfingar og keppni á ný í haust aðeins nokkrum dögum eftir að hafa lokið lyfjameðferð.



