Ólafur Andrés Guðmundsson lék í dag sinn fyrst leik í frönsku 1. deildinni í handknattleik eftir að hafa samið við stórliðið Montpellier í sumar. Hann fagnaði því miður ekki sigri í frumrauninni heldur mátti þakka fyrir jafntefli á heimavelli gegn St Raphaël, 29:29.
Marko Panic jafnaði metin fyrir Montpellier á síðustu sekúndu leiksins sem var hnífjafn og æsilega spennandi frá upphafi til enda.
Ólafur skoraði fjögur mörk í sjö skotum og tók mikinn þátt í leiknum, jafnt í vörn sem sókn. Nóg verður að gera hjá Ólafi og félögum á leiktíðinni því auk þess að leika í deildinni heimafyrir verða þeir í eldlínunni í Meistaradeild Evrópu sem hefst um miðja vikuna.
Leikmenn St Raphaël voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13. Montpellier liðinu tókst að jafna metin í fljótlega í síðari hálfleik. Eftir það má segja að með örfáum undantekningum hafi aðeins munað einu marki á liðunum á annað hvorn veginn allt til loka.