- Auglýsing -
- Auglýsing -

Maður er bæði sár og svekktur

Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður SC Magdeburg og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Maður er bara sár og svekktur eftir leikinn í gær og er ennþá svekktari eftir að hafa horft á leikinn. Við hentum boltanum oft frá okkur í opnum færum og síðan var okkur refsað fyrir hver mistök því Svíar skoruðu alltaf mark í bakið á okkur. Það má segja að refsingin hafi verið tvöföld,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í Gautaborg í dag.

Ætlaði sér lengra

Gísli Þorgeir er ekki einatt óánægður með frammistöðuna í gær í tapleiknum við Svía heldur er hann vonsvikinn með árangurinn á mótinu sem hafi e.t.v. hafi ráðist á 15 mínútna kafla í einum leik. Gísli Þorgeir ætlaði sér lengra en margt bendir til þess að íslenska landsliðið ljúki leik á HM á morgun og komist ekki í átta liða úrslit á heimsmeistaramótinu.

Upphafskaflanir voru dýrir

„Upphafskaflar beggja hálfleika voru okkur dýrir. Við skoruðum ekki mark í að minnsta kosti þremur fyrstu sóknunum í hvorum hálfleik. Meðan Svíar gáfu tóninn þá tókst okkur ekki að svara þeim. Okkur vantaði eitthvað aukalega. Spilamennskan var góð og við fengum færni, skoruðum 30 mörk en það dugði ekki. Of mörg færi fóru forgörðum,“ sagði Gísli Þorgeir.


Enn glíma íslenskir landsliðsmenn við slynga sænska markverði, eins og þegar faðir Gísla Þorgeirs, Kristján Arason, stóð í eldínunni með íslenska landsliðinu á níunda áratug síðustu aldar. Í gær var Andreas Palicka markvörður íslenska landsliðinu einkar óþægur ljár í þúfu.

Af hverju gerðist þetta?

Gísli Þorgeir segir að þegar litið sé til baka þá átti hann sig ekki enn á hvað varð þess valdandi að botninn datt úr leik íslenska landsliðsins síðasta stundarfjórðunginn af leiknum við Ungverja eftir 45 mínútur og mjög góðan leik áður gegn Portúgal.

Lokakaflinn í leiknum við Ungverja muni væntanlega reynast dýr þegar upp verður staðið.


„Við getum ekki kvartað yfir að hafa ekki leikið okkur í færi síðasta korterið gegn Ungverjum. Þá, eins og í gær á móti Svíum, brást okkur bogalistinn hvað eftir annað einir gegn markverði. Það vantar eitthvað hjá okkur. Hvort það er andlegt eða eitthvað annað veit ég ekki. Kannski vantar í okkur ákveðið drápseðli,“ sagði Gísli Þorgeir og bætti við að óvíst væri að fleiri langskot á markið hefði leyst vandann. „Maður fær ekki betri færi en einn gegn markverði á sex metrum.“

Snúum bökum saman

„Þannig er sportið. Þótt mótinu sé að öllum líkindum brátt lokið hjá okkur án þess að markmiðið hafi náðst þá verðum við að horfast í augum við árangurinn og snúa bökum saman,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -