Leikmenn spænska liðsins BM Porriño mæta eflaust eins og grenjandi ljón til leiks gegn Val í síðari úrslitaleik Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik á Hlíðarenda á laugardaginn. Þeir féllu úr leik í átta liða úrslitum úrslitakeppni spænsku 1. deildarinnar í gærkvöld eftir annað 11 marka tap fyrir BM Elche, 30:19. BM Porriño tapaði einnig fyrri viðureigninni með 11 marka mun, 32:21, á Alicante fyrir viku.
BM Porriño hefur þar með lokið keppni á Spáni á leiktíðinni.
Aðeins einn leikur er eftir hjá BM Porriño, síðari úrslitaleikinn við Val í N1-höllinni á laugardaginn klukkan 15. Allt verður lagt í sölurnar. Eins og kom fram á handbolti.is má búast við a.m.k. 100 stuðningsmönnum BM Porriño á viðureignina.
Fyrri viðureign Vals og BM Porriño lauk með jafntefli á síðasta laugardag, 29:29. Einvígið um Evrópubikarinn stendur þar með galopið fyrir síðari viðureignina.
Miðasala á síðari úrslitaleikinn er á stubb.is.
Eftir því sem næst verður komist hefur miðasala á úrslitaleikinn í laugardaginn gengið vel og ljóst að margir vilja vera vitni að sögulegri stund í íslenskri íþróttasögu þegar Evrópubikar verður afhentur í fyrsta sinn á Íslandi.
Auk BM Elche eru meistarar síðasta árs, Super Bera Bera, Gurardes og BM Málaga í undanúrslitum um spænska meistaratitilinn. Valur vann BM Málaga í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í vetur.