„Ég er mjög stoltur af liðinu og öllu teyminu sem vinnur með okkur. Við erum ánægðir með okkur, það skal fúslega viðurkennt,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara U21 árs landsliðs karla í handknattleik léttur í bragði þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans eftir að íslenska landsliðið tryggði sér sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik í gær.
Þrír áratugir eru liðnir síðan 21 árs landslið Íslands í karlaflokki náði svo langt á heimsmeistaramóti. Róbert Gunnarsson er þjálfari 21 árs landsliðsins ásamt Einari Andra.
Árla í morgun kvaddi íslenski hópurinn Aþenu og tók fyrsta flug til Berlínar þar sem þráðurinn verður tekinn á handknattleiksvellinum á fimmtudaginn. Hafist verður handa við að leggja á ráðin eftir komu til þýsku höfuðborgarinnar í dag.
Æft verður í Max Schmeling-Halle á morgun, miðvikudag.
Silfurlið EM í fyrra
Stóra stundin rennur upp í átta liða úrslitum á fimmtudag þegar flautað verður til leiks við landslið Portúgal í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins. Að uppistöðu til er um að ræða nánast sömu leikmenn og skipuðu portúgalska landsliðið sem tapaði með einu marki fyrir Spáni í úrslitaleik Evrópumóts 20 ára landsliða í Porto fyrir ári.
Spennandi framhald
„Framhaldið er spennandi. Verkefninu í Aþenu er lokið með fimm vinningum af fimm mögulegum. Ég er er virkilega ánægður með liðið í heildina. Við förum fullir sjálfstrausts í framhaldið í Berlín á fimmtudaginn og um helgina,“ sagði Einar Andri.
Fórum of bratt í breytingar
Spurður út þau skörpu kaflaskil sem urðu í leiknum við Egypta í gær í milliriðlakeppninni þegar íslenska liðið tapaði niður 10 marka forskoti á 15 mínútna kafla svaraði Einar Andri.
„Frammistaðan í 45 mínútur var stórkostleg. Þegar við vorum komnir tíu mörkum yfir ákváðum við að hvíla lykilmenn. Eftir á að hyggja þá fórum við full bratt í breytingarnar og lentum fyrir vikið í vandræðum. Sem betur fer þá tókst okkur að vinna leikinn þótt við værum á tapasta vaði.
Raunin var sú að við máttum tapa með allt að fimm marka mun án þess að það kæmi í veg fyrir að við færum í átta liða úrslit,” sagði Einar Andri og bætti við.
„Við vorum heppnir að vinna leikinn í lokin og Egyptar að sama skapi klaufar að missa hausinn í lokin og gefa okkur vítakast.
Það var gaman og gott að vinna leikinn og verða þar með efstir í riðlinum. Að fara með fullt hús stiga frá Aþenu veitir okkur aukið sjálfstraust fyrir framhaldið,” sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara U21 árs landsliðs Íslands.