Feðgar verða að öllum líkindum andstæðingar í Kaplakrika í kvöld þegar FH og Víkingur mætast í Olísdeild karla. Jóhannes Berg Andrason leikur með FH en faðir hans, Andri Berg Haraldsson, er leikmaður Víkings og í þjálfarateymi liðsins.
Ef af verður þá verður það a.m.k. í annað sinn sem feðgar mætast í viðureign á milli FH og Víkings í Kaplakrika í efstu deild karla í handknattleik.
Andri Berg er FH-ingur að upplagi en hefur síðustu ár leikið með Víkingi sem fór upp úr Grill 66-deildinni í vor. Jóhannes Berg lék með Víkingi áður en hann gekk til liðs við FH sumarið 2022.
Ef þeir feðgar mætast á handknattleiksvellinum í kvöld verður það í að minnsta kosti annað sinn sem feðgar eigast við í leik á milli FH og Víkings í efstu deild karla í handknattleik á fjölum Kaplakrika.
Hinn 4. desember 2008 stóðu feðgarnir Bjarki Sigurðsson og Örn Ingi Bjarkason andspænis hvor öðrum á þessum sama velli.
Bjarki lék þá með Víkingi en Örn var leikmaður FH.
Tímabilið á eftir, 2009/2010, voru Bjarki og Örn samherjar hjá FH áður en Bjarki lagði skóna endanlega á hilluna og sneri sér alfarið að þjálfun.
Leikur FH og Víkings hefst í Kaplakrika klukkan 19.30 í kvöld.