- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mættu ekki og töpuðu – bæði lið sektuð

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur úrskurðað serbneska liðinu Vojvodina sigur í rimmu liðsins við Krems frá Austurríki í 3. umferð Evrópubikarkeppni karla í handknattleik.

Forsvarsmenn Krems hættu við að mæta til síðari viðureignar liðanna sem fram átti að fara í Serbíu 10. desember. Töldu þeir öryggi sínu ógnað með heimsókn til Vojvodina eftir að hópur serbneskra óeirðaseggja voru ógnandi og höfðu uppi dólgslega hegðun í fyrri viðureign liðanna sem fram fór í Austurríki 3. desember. Varð að kalla út öfluga vopnaða lögreglusveit til þess að fjarlægja serbnesku áhorfendurna úr keppnishöllinni.

Báðum félögum er gert að greiða sekt samkvæmt úrskurði aganefndar EHF. Vojvodina var sektað um 15.000 evrur, um 2,3 milljónir kr.,  vegna framkomu stuðningsmanna liðsins á leiknum. Helmingur sektarinnar verður felldur niður að tveimur árum liðnum ef félaginu tekst að hafa stjórn á áhorfendum sínum. Einnig verður Vojvodina að leika tvo næstu heimaleiki sína í Evrópukeppni fyrir luktum dyrum.

Krems var úrskurðað tap, 10:0, í síðari leiknum og er þar með úr leik. Einnig verður félagið að greiða sekt upp á 7.500 evrur, um 1.150.00 krónur. Svo virðist sem EHF taki lítið mark á að Kremsliðinu hafi staðið ógn af heimsókn til Vojvodina. Þvert á móti er skróp liðsins litið alvarlegum augum.

Þjálfari Krems, Ibish Thaqi, er ættaður frá Kósovó, en ógnandi framkoma serbnesku stuðningsmannanna var ekki síst beint gegn Thaqi.

Vojvodina vann leikinn í Austurríki með tveggja marka mun, 29:27.

Félögin geta áfrýjað úrskurðinum innan sjö daga frá 21. desember sl.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -