„Mér fannst við hafa tök á Pólverjunum frá upphafi. Ef ekki hefði verið fyrir nokkur klaufaleg mistök þá hefðum við slitið okkur frá þeim strax í fyrri hálfleik. Við héldum okkar plani frá upphafi til enda. Það skilaði sér heldur betur í dag,“ sagði varnarjaxlinn Ýmir Örn Gíslason í viðtali við handbolta.is eftir sigurinn á Pólverjum í annarri umferð riðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik í Kristianstad í kvöld, 31:23.
„Við mættum eins og grenjandi ljón í síðari hálfleikinn og gerðum út um dæmið. Mikið hrós á alla í liðinu að koma svona inn síðari hálfleikinn. Það er ekki alveg sjálfgert,“ bætti Ýmir Örn við en íslenska liðið gerði út um leikinn á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks.
Ýmir Örn sagði að undir eins yrði farið að huga að leiknum við Ungverja í lokaumferð riðlakeppninnar á þriðjudaginn. Úrslit þess leiks munu væntanlega skera úr um hvort íslenska liðið fari áfram með tvö, eitt eða ekkert stig í milliriðla.
Allt mögulegt með þessu stuðningsmönnum
„Við förum í alla leiki til þess að vinna. Það er allt mögulegt með þessa frábæru stuðningsmenn okkar. Þegar við mætum í salinn 50 mínútum fyrir leik þá eru þeir byrjaðir að syngja og hvetja á pöllunum. Stemningin var alveg sturluð, ekki síst meðan þjóðsöngurinn var leikinn. Það er magnað að upplifa þetta. Maður á eiginlega engin orð til þess að lýsa þessari tilfinningu og stemningu sem myndast í salnum,“ sagði Ýmir Örn Gíslason landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í Kristianstad.




