- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mættum ekki með látum til leiks

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Fljótlega í leiknum þá sá maður það á strákunum að þeir ætluðu sér mikið og kannski um leið að komast svolítið létt í gegnum hann. Það er bara ekki hægt eins og kom í ljós. Það vantaði léttleikann í okkur framan af, menn voru svolítið stífir, en sem betur fer tókst að bæta úr skák, sérstaklega í síðari hálfleik,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari karlaliðs Hauka, í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir sex marka sigur á KA, 27:21, í fyrstu umferð Olísdeildar karla á Ásvöllum.


„Framan af var leikur okkar afar slakur og á stundum komumst við ekki einu sinni í vörnina fyrr en eftir að KA-menn voru búnir að skora. Þegar á leið tókst okkur laga aðeins sóknarleikinn, að minnsta kosti misstum við boltann sjaldnar klaufalega. Það varð þess valdandi að við gátum stillt upp í vörn og fengum ekki á okkur nema tvö mörk síðasta korterið í fyrri hálfleik,“ sagði Rúnar en hans menn voru undir, 9:4, um miðjan fyrri hálfleik. Í hálfleik var staðan jöfn, 11:11.

Unnum okkur inn í leikinn

„Það verður ekki sagt um okkar að við höfum komið inn í leikinn með látum. Á móti kemur að það var jákvætt hvernig okkur tókst að vinna okkur inn í leikinn. Það kom aldrei upp panik,“ sagði Rúnar sem byrjaði á að stilla Guðmundi Braga Ástþórssyni upp í vinstra horni í stað Stefáns Rafns Sigurmannssonar sem varð að hætta við þátttöku í leiknum skömmu áður en flautað var til leiks.


Stefán Rafn datt út

Stefán Rafn kennir sér meins í öðru hné og varð að draga sig út úr liðinu að læknisráði þremur tímum áður en leikurinn hófst. Össur Haraldsson tók síðan við hlutverki Guðmundar Braga í vinstra horni og leysti það vel af hendi leikinn á enda. Össur er vanari að leik á miðjunni.


Guðmundur Bragi og Andri Már Rúnarsson voru lengst af í aðalhlutverki í sóknarleiknum en mikill hraði fylgir þeim félögum sem þekkjast vel eftir að hafa leikið saman með u19 og u20 ára landsliðunum. Óvíst er hversu lengi Stefán Rafn verður frá keppni.

Næstu leikir í Olísdeild karla fara fram á fimmtudaginn. Þá mætast m.a. ÍR og Haukar í nýju íþróttahúsi ÍR í Breiðholti.

Leikjadagskrá Olísdeilda.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -