Þýska meistaraliðið SC Magdeburg heldur áfram í vonina um sæti í fyrstu umferð útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla eftir fjögurra marka sigur á pólska liðinu Industria Kielce, 29:25, í Póllandi í kvöld.
Lítið má hinsvegar út af bera hjá liðinu í síðustu þremur leikjum riðlakeppninnar til þess að sætið gangi ekki liðinu úr greipum. Magdeburg er í fimmta sæti B-riðils með níu stig eftir 11 leiki og er einu stigi á eftir Kielce og Kolstad sem sitja í sjötta og sjöunda sæti. Sex efstu lið riðilsins. Kolstad vann einnig viðureign sína í kvöld á heimavelli gegn Nantes, 29:28.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú af mörkum Magdeburg í sigrinum dýrmæta í Kielce. Felix Claar og Matthias Musche skoruðu sjö mörk hvor fyrir Magdeburg. Daniel Dujshebaev og Artsem Karalek skoruðu sex mörk hvor fyrir Kielce.
![](https://handbolti.is/wp-content/uploads/2025/02/03/12816737.jpg)
Bergerud fór á kostum
Kolstad knúði fram sigur á Nantes, 29:28, í Þrándheimi í kvöld eftir að norska meistaraliðið hafði náð góðu forskoti í fyrri hálfleik, 18:11. Ekki síst var það að þakka stórleik Torbjørn Bergerud markvarðar sem varði eins og berserkur. Franska liðið sótti í sig veðrið í síðari hálfleik og hafði nærri jafnað metin.
Sigvaldi Björn Guðjónsson var sá eini af fjórum Íslendingum í liði Kolstad sem skoraði í leiknum. Hann skoraði fjögur mörk í átta skotum.
![](https://handbolti.is/wp-content/uploads/2025/02/03/12816537.jpg)
Töpuðu á heimavelli
Janus Daði Smárason og liðsfélagar í Pick Seged töpuðu á heimavelli fyrir neðsta liði B-riðils. RK Zagreb, 27:26. Janus Daði skoraði ekki mark í leiknum en átti þrjár stoðsendingar. Mario Sostaric skoraði átta mörk fyrir Picl Szeged. Zvonimir Srna skoraði einnig átta mörk fyrir Zagreb og Filip Glavaš var næstur með fjögur mörk.
Dramatík í Álaborg
Talsverð dramatík var í Álaborg þegar tvö efstu lið B-riðils, Aalborg Håndbold og Barcelona mættust. Álaborgarliðið vann með eins marks mun, 36:35. Niklas Landin markvörður tryggði sigurinn með því að verja vítakast frá Melvyn Richardson þegar leiktíminn var úti. Vítakastið var dæmt eftir að leikmenn Aalborg töpuðu boltanum þegar skammt var til leiksloka og einn leikmanna liðsins, Thomas Arnoldsen braut af sér.
Aalborg yfirspilaði Evrópumeistarana í fyrri hálfleik og skoraði 23 mörk gegn 18 frá Barcelona. Aldrei hefur Barcelona fengið á sig fleiri mörk í einum hálfleik í viðureign í Meistaradeildinni.
Arnoldsen skoraði níu mörk fyrir Aalborg Håndbold og Dika Mem skoraði einnig níu mörk fyrir Barcelona. Timothey N’guessan og Luis Frade skoruðu átta mörk hvor.
Staðan í B-riðli:
Fjórir leikir í A-riðli fara fram annað kvöld.