Þýska meistaraliðið SC Magdeburg staðfesti í tilkynningu í morgun að Gísli Þorgeir Kristjánsson verði frá keppni í nokkrar vikur. Gísli Þorgeir meiddist í leik með liðinu á miðvikudaginn í síðustu viku. Í ljós kom daginn eftir að sin í hægri il tognaði.
Ekki kemur fram í tilkynningu Magdeburg nákvæmlega hversu lengi er reiknað með að Gísli Þorgeir verður úr leik enda getur iljarfellsbólga verið erfið viðureignar. Aðeins er sagt nokkrar vikur.
Magdeburg á fyrir höndum stífa leikjadagskrá. Auk tveggja leikja í Meistaradeildinni á næstu rúmu viku er liðið tveimur leikjum á eftir flestum liðum þýsku 1. deildarinnar.
Tíð og langvarandi meiðsli hafa hrjáð leikmenn Magdeburg allt frá því áður en leiktíðin hófst þegar tveir liðsmenn meiddust í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna. M.a. er Ómar Ingi Magnússon ennþá frá keppni vegna ökklameiðsla.
Landsleikur eftir þrjár vikur
Íslenska landsliðið kemur saman í Grikklandi mánudaginn 10. mars til leiks við gríska landsliðið tveimur dögum síðar ytra og auk heimaleiks laugardaginn 15. mars. Gísli Þorgeir var vongóður um að ná landsleikjunum þegar hann talaði við Vísir í síðustu viku.