Magnaður endasprettur leikmanna HC Erlangen tryggði liðinu sigurinn á nýliðum Bergischer HC í annarri umferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í kvöld, 33:29. Erlangen-liðið átti undir högg að sækja í leiknum frá upphafi en tókst að snúa við taflinu á síðustu mínútunum og skora sex síðustu mörk leiksins. Leikið var á heimavelli Bergischer HC, Uni-Halle.
Viggó Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir HC Erlangen, tvö þeirra úr vítaköstum. Andri Már Rúnarsson skoraði þrjú mörk.
Arnór Þór Gunnarsson er annar þjálfara Bergischer HC sem er stigalaust eftir tvo fyrstu leikina. HC Erlangen var á hinn bóginn að ná í sín fyrstu stig.
Annar sigur hjá Hauki
Haukur Þrastarson og liðsfélagar í Rhein-Neckar Löwen eru í góðum málum eftir að hafa unnið annan leik sinn í þýsku 1. deildinni í kvöld. Að þessu sinni lagði Rhein-Neckar Löwen hina nýliða deildarinnar, GWD Minden, 28:24, á heimavelli. Haukur skoraði ekki mark en átti eina stoðsendingu.
Töpuðu fyrir meisturunum
Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark og var einu sinni vikið af leikvelli þegar Göppingen tapaði fyrir meisturum Füchse Berlin, 32:26, í EWS Arena í Göppingen. Staðan var jöfn í hálfleik, 16:16. Berlínarliðið var sterkara þegar kom fram í síðari hálfleik. Mathias Gidsel skoraði sjö mörk og gaf fimm stoðsendingar fyrir Berlínarliðið.
THW Kiel vann Wetzlar, 34:30, í fjórða leik 2. umferðar sem hófst síðdegis.