- Auglýsing -
- Auglýsing -

Magnús boðar ekki byltingu – höldum okkar stefnu

Íslandsmeistarar ÍBV í handknattleik karla 2023. Mynd/Mummi Lú
- Auglýsing -

Magnús Stefánsson tók við þjálfun karlaliðs ÍBV í handknattleik í sumar. Um er ræða frumraun Magnúsar sem aðalþjálfara meistaraflokks en hann hefur verið viðloðandi þjálfun undanfarin ár eftir að keppnisskórnir voru lagðir til hliðar. M.a. var Magnús aðstoðarmaður Erlings Birgis Richardssonar á síðustu leiktíð.

Áfram byggt á sama grunni

Norðanmaðurinn er hvergi banginn við verkefnið. Hann hefur búið í Vestmannaeyjum um árabil og þekkir hjartslátt íbúanna. Magnús segir það verða verkefni sitt að halda áfram að byggja upp sterkt lið á þeim grunni sem fyrir hendi er og var lagður af forverum hans í þjálfun karlaliðsins, Arnari Péturssyni og Erlingi.

„Það verða ekki mikla breytingar á leik ÍBV eða í þeirri vinnu sem fram fer í kringum liðið þótt ég taki við þjálfun. Ég tók við verkefni sem unnið hefur verið að undanfarin ár. Ég þekki vel til. Við höldum áfram á sömu vegferð sem ég tel vera mjög gott fyrir alla. Menn þurfa ekki laga sig að miklum breytingum,“ sagði Magnús sem hefur Roland Eradze fyrrverandi markvörð sér til halds og trausts við þjálfunina.

Kári Kristján Kristjánsson, ein af kjölfestum ÍBV-liðsins. Mynd/J.L.Long

Alveg óvart

Athygli hefur vakið að ÍBV stendur í ströngu í þessari viku. Leikur í tveimur mótum sömu vikuna, Ragnarsmótinu og í Hafnarfjarðamótinu.

„Það gerðist óvart. Þegar ég ákvað að taka þátt var ég viss um að mótin færu ekki fram á sama tíma. Þau hafa ekki rekist á síðustu árin. Þegar ljóst var að mótin færu fram í sömu viku þá fannst mér ekki vera hægt að hætta við þátttöku á öðru hvoru svo það var ákveðið að láta slag standa og dreifa álaginu, leyfa öllum leikmönnum að vera með, einnig þeim yngri. Gefa þannig sem flestum tækifæri til þess að nýta tækifærið, dreifa álaginu. Þetta sást meðal annars á fyrsta leiknum okkar í Hafnarfjarðamótinu gegn Haukum. Þá vorum við með marga yngri leikmenn sem ekki hafa verið í eldlínunni,“ sagði Magnús sem m.a. tekur þátt í tveimur leikjum í röð á Ragnarsmótinu á föstudagskvöldið. Þá verður gott að skipta hópnum upp.

Koma okkar mönnum á legg

„Auk þess þá er það ekkert launungamál að við keppumst við að koma okkar mönnum á legg. Þess vegna er nauðsynlegt að nota öll tækifæri sem gefast til að tefla þeim fram,“ sagði Magnús.

Fá spurningamerki eru í leikmannahópnum þegar aðeins er rúmlega vika í fyrsta leik ÍBV, gegn Aftureldingu í Meistarakeppni HSÍ, laugardaginn 2. september í Vestmannaeyjum.

Fá sinn tíma

„Óvissa ríkir um hvort og þá hvenær Theodór [Sigurbjörnsson] kemur til liðs við okkur. Hann liggur undir feldi auk þess að glíma við smávægileg meiðsli. Miðjumennirnir Dagur [Arnarsson] og Elmar [Erlingsson] eru einnig lítillega meiddir. Þeir eru í meðferð hjá sjúkraþjálfara sem stýrir álaginu á þeim. Ég geri mér þó vonir um að mega tefla öðrum hvorum eða báðum fram á föstudaginn. Ég tek hinsvegar ekki fram fyrir hendurnar á sjúkraþjálfaranum, tek því sem hann segir.“

Pavel Miskevich markvörður kom til ÍBV i upphafi ársins og hefur reynst góður liðsauki með Petar Jokanovic. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
Komnir:
Daniel Vieira frá Avanca.
Friðrik Hólm Jónsson frá ÍR.
Gauti Gunnarsson frá KA.
Farnir:
Janus Dam Djurhuus til Færeyja.
Rúnar Kárason til Fram.

Hópurinn er klár

Magnús segir að eins og staðan á hópnum er þá standi ekki til að bæta leikmönnum.

„Hópurinn er klár. Við misstum Rúnar Kárason og Janus Dam. Við teljum okkur vera með nógu marga leikmenn til þess að fylla í skarðið sem Janus skildi eftir sig. Í stað Rúnars fengum við portúgalskan leikmann. Til viðbótar þá eigum við leikmenn sem geta leikið í skyttustöðunni hægra megin. Af því höfum við reynslu frá síðustu leiktíð þegar Rúnar var fjarverandi í skamman tíma vegna meiðsla.

Menn eru fullir tilhlökkunar fyrir vetrinum sem framundan er,“ sagði Magnús Stefánsson þjálfari karlaliðs ÍBV sallarólegur.

Tengdar fréttir:

Olísdeild karla.

Leikjadagskrá Olísdeilda.

Karlar – helstu félagaskipti 2023

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -