- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Margir kallaðir en fáir útvaldir – gaman að koma að landsliðinu á ný

Arnór Atlason aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í handknattleik og þjálfari TTH Holstebro. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Mér líst vel á þetta allt. Mjög góð vika er að baki með mörgum góðum æfingum og síðan tveimur fínum vináttuleikjum. Síðustu daga hafa verið mjög mikilvægir fyrir Snorra og mig að hitta strákana og kynnast þeim ennþá betur,“ sagði Arnór Atlason aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is. Arnór kom inn í þjálfaratreymi landsliðsins um leið og Snorri Steinn Guðjónsson var ráðinn í vor.

Margir koma til greina

„Við erum fullir tilhlökkunar vegna næsta verkefnis sem verður mjög stórt, EM í Þýskalandi í janúar. Þá verður meiri alvara á ferðum,“ sagði Arnór og bætti við að staðan á leikmannahópum væri góð um þessar mundir. Vonandi verður svo áfram.

„Margir koma til greina. Við vorum með yfir 20 leikmenn á æfingunum og þótt allir hafi ekki fengið tækifæri til að vera með í leikjunum tveimur við Færeyinga þá fengu menn sín tækifæri á æfingum. Vissulega er staðan sú að margir eru kallaðir en færri verða útvaldir þegar á hólminn verður komið.“

Fengu mörg svör

Arnór sagði að þjálfararnir hafi fengið svör við ýmsum atriðum sem velt hefur verið vöngum yfir, jafnt í vörn sem sókn. „Við verðum að vinna vel saman þegar við hittumst aftur í desember áður en keppni hefst á EM í janúar,“ sagði Arnór sem á sínum tíma lék 200 A-landsleiki og tók þátt 13 stórmótum sem leikmaður landsliðsins.

Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason bera hitann og þungan af undirbúningi karlalandsliðsins fyrir EM í janúar. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Gaman að kynnast þjálfaranum Snorra

Arnór segir það vera heiður og ánægju að fá tækifæri til þess að kom að landsliðinu á nýjan leik í öðru hlutverki og taka þátt í landsleikjum í Laugardalshöll á nýjan leik.

„Svo er mjög gaman að fá tækifæri til þess að vinna með Snorra Steini sem ég þekki afar vel sem samherja í landsliðinu og hjá félagsliðum um langt árabil. Við vinnum saman í fyrsta skipti sem þjálfarar. Það er gaman að kynnast þjálfaranum Snorra.“

Tók ekki langan tíma

Það tók Arnór ekki langan tíma að velta því fyrir sér að vinna með Snorra þegar lögð voru drög að því að Snorri tæki við þjálfun landsliðsins í vor.

„Þetta var kærkomið tækifæri sem bauðst eftir að hafa verið með danska unglingalandsliðið í þrjú ár auk þess að vinna sem aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold í nokkur ár. Hjá báðum liðum var frábærum tíma að ljúka um þetta leyti sem íslenska landsliðið kom inn myndina hjá mér. Að fá tækifæri til þess að taka þátt í að þjálfa íslenska landsliðið var og er einstakt tækifæri sem ekki var annað en að segja já við.“

Skarast ekki á

Í sumar tók Arnór við þjálfun danska úrvalsdeildarliðsins TTH Holstebro. Hann segir starfið hjá félaginu ekkert skarast við vinnu sína fyrir landsliðið.

„Við vorum ekkert að spila í síðustu viku. Auðvitað verður erfitt að vera í burtu hjá Holstebro allan janúar mánuð en við höfum séð til þess að liðið verður í góðum höndum á meðan ég verð með íslenska landsliðinu,“ sagði Arnór Atlason aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -