„Þetta var einfaldlega erfiður leikur gegn vel samæfðu liði sem svo sannarlega var ekki að koma saman í fyrsta sinn. Margt var jákvætt í okkar leik í fyrri hálfleik en að sama skapi eitt og annað neikvætt í síðari hálfleik þegar við gerðum okkur sek um að brjótast úr skipulaginu. Þar af leiðandi var okkur refsað,“ sagði Júlíus Þórir Stefánsson þjálfari Gróttu í samtali við handbolta.is eftir níu marka tap fyrir Fram í Olísdeild kvenna, 31:22, í Lambhagahöllinni í dag þegar keppni hófst á ný í deildinni.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Grótta veitti Fram harða keppni á köflum í fyrri hálfleik og staðan var 14:10 að honum loknum. Í síðari hálfleik komu veikleikar Gróttuliðsins í ljós eins og Júlíus bendir á í viðtalinu.
„Ég trúi því að fyrir okkur sé ekki svo langt í miðjupakkann í deildinni og að með því að halda áfram að byggja ofan á það sem við erum að gera getum við blandað okkur í þann slag. Til þess þarf margt að ganga upp og hlutir að falla með okkur,“ sagði Júlíus Þórir ennfremur.
Nánar er rætt við Júlíus Þórir í myndskeiði hér fyrir neðan.