- Auglýsing -

Margt gott sem hægt er að byggja ofan á

- Auglýsing -


„Danska liðið er feikisterkt eftir tvenn silfurverðlaun á síðustu tveimur stórmótum í þessum árgangi. Við vissum að það yrði á brattann að sækja hjá okkur. Þrátt fyrir tap þá sýndu stelpurnar margt gott sem við getum byggt á í framhaldinu. Nú tekur við undirbúningur fyrir leikinn við Litáen á morgun,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfari U19 ára landsliðs kvenna í handknattleik við handbolta.is eftir sex marka tap Íslands fyrir Danmörku í fyrstu umferð Evrópumótsins í Podgorica í Svartfjallalandi, 31:25. Leiknum lauk á tólfta tímanum.

Byrjunin var ekki nógu góð

„Ég hefði viljað sjá okkur byrja leikinn betur en við gerðum. Sennilega var of mikil spenna í liðinu sem varð þess valdandi að mistökin voru of mörg. Danska liðið refsar fyrir hver mistök með hraða sínum. Eins náðum við ekki að mæta danska landsliðinu nógu vel í okkar varnarleik framan af. Þar af leiðandi var markvarslan ekki eins góð og maður vildi. En þegar á leið fyrri hálfleik þá tókst okkur að stilla betur strengina og koma okkur inn í leikinn. Í ljósi þess var munurinn of mikill í hálfleik. Munurinn hefði getað verið tvö til þrjú mörk í stað fimm,“ sagði Ágúst Þór ennfremur.

Kaflaskipt

Ágúst Þór sagði síðari hálfleik hafa verið kaflaskiptan. Framan af hafi gengið vel áður en verr gekk þegar á leið og danska liðið náði mest níu marka forskoti upp úr miðjum síðari hálfleik.

Örlítið svekktur

„Okkur tókst að komast nær Dönum undir lokin. Þegar upp er staðið er maður kannski örlítið svekktur að hafa ekki náð að tapa með þremur til fjórum í dag í stað sex marka,“ sagði Ágúst Þór sem vissi fyrirfram að Danir væri með langbesta liðið í riðlinum enda er þessi árgangur Dana með verðlaun frá EM 17 ára og HM 18 ára á síðasta ári.

Sex marka tap fyrir sterku dönsku landsliði

Allar fengu mínútur

„Allir leikmenn fengu mínútur í leiknum sem er afar mikilvægt fyrir framhaldið. Við getum byggt á mörgum eftir þessa frammistöðu,“ sagði Ágúst Þór sem liðinu næst fram gegn Litáen á morgun. Litáen mætir Svartfellingum um miðjan dag í dag í síðari leik dagsins í B-riðli.

„Margar sóknir voru góðar og ýmislegt sem við getum byggt á til framfara í næstu leikjum. Það er líka markmið okkar að stíga framfaraskref og verða betri eftir því sem á mótið líður,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson í samtali við Podgorica í hádeginu.

Ásamt Ágústi Þór er Árni Stefán Guðjónsson þjálfari U19 ára landsliðsins.

EM19-’25: Leikjadagskrá, riðlakeppni, úrslit og staðan

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -