- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mark Rakelar Söru var gulls ígildi

Leikmenn KA/Þór fagna í einu leikjum tímabilsins. Þær mæta ÍBV í oddaleik á laugardaginn. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

KA/Þór tryggði sér oddaleik í undanúrslitum Olísdeildar kvenna með þriggja marka sigri í mögnuðum leik í Vestmannaeyjum í kvöld, 24:21, eftir spennuþrungnar lokamínútur þar sem ÍBV náði að jafna metin, 21:21, í fyrsta sinn í síðari hluta seinni hálfleiks. Liðin mætast í oddaleik á Akureyri á laugardaginn.


KA/Þórsliðið var með yfirburði í fyrri hálfleik. Hvorki gekk né rak í sóknarleik ÍBV gegn frábærri vörn KA/Þórs. Hrafnhildur Hanna skoraði ekki mark í hálfleiknum og Ásta Björt Júlíusdóttir skoraði eitt. Norðankonum tókst að draga allan kraft úr Eyjaliðinu sem virtist nokkuð spennt og alls ekki klárt í slaginn. Flest skot ÍBV í átt að markinu fóru framhjá eða yfir og leikmenn virtust yfirspenntir.

KA/Þórsliðið var með sex marka forskot í hálfleik, 12:6, sem var afar verðskuldað.


Allt annað ÍBV-lið mætti til leiks í síðari hálfleik frábærlega stutt af fjölmennum hópi fólks sem notaði tækifærið nú þegar liðkað hefur verið um áhorfendafjölda á leikjum og mætti á pallana og lét vel í sér heyra.


ÍBV saxaði fljótt á forskot KA/Þórsliðsins. Vörn Eyjakvenna var mun betri auk þess sem sóknarleikurinn var mun liðugri. Hröð upphlaup gáfust. Forskot KA/Þórs var komið niður í eitt mark eftir liðlega tíu mínútur í síðari hálfleik, 16:15.


Eftir að KA/Þór hafði náð þriggja marka forskoti náði Lina Cardell að minnka muninn í eitt mark, 21:20, með marki fyrir ÍBV eftir hraðaupphlaup fjórum mínútum fyrir leikslok. Harpa Valey Gylfadóttir jafnaði metin, 21:21, úr öðru hraðaupphlaupi þegar tvær mínútur og 50 sekúndur voru til leiksloka og þakið ætlaði hreinlega að rifna af íþrótttahúsinu í Eyjum, og er það þó sterkbyggt. Rétt áður en Harpa Valey skoraði hafði KA/Þórsliðið verið svikið um vítakast.


Rakel Sara Elvarsdóttir skoraði á ótrúlega hátt af línu úr vinstra horni þegar innan við tvær mínútur voru eftir, 22:21. Hvernig Rakel Sara náði valdi á boltanum og skila honum í markið er rannsóknarefni en víst er að markið var gulls ígildi.


Skot Ástu Bjartar geigaði og Sólveig Lára Kristjánsdóttir skoraði 23. mark KA/Þórs skömmu síðar. Sigurinn var innan seilingar og í hendi skömmu síðar í magnaðri stemningu í íþróttahöllinni í Vestmannaeyjum.

Mörk ÍBV: Harpa Valey Gylfasdóttir 4, Elísa Elíasdóttir 4, Ásta Björt Júlíusdóttir 4, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 3, Lina Cardell 3, Sunna Jónsdóttir 2, Karolina Olszowa 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 7, 29,2% – Darija Zecevic 5, 45,5%.

Mörk KA/Þórs: Rakel Sara Elvarsdóttir 6, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 5, Ásdís Guðmundsdóttir 5, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 11, 34,4%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -