Nýliðar Harðar buðu Íslandsmeisturum Vals upp á markaveislu er meistararnir komu í heimsókn vestur í kvöld. Vafalaust kærkomin upphitun fyrir skötuveislur sem verða að minnsta kosti í öðru hverju húsi í bænum eftir réttar fjórar vikur.
Varnarleikurinn var að mestu látinn sitja á hakanum og skoruðu leikmenn liðanna mörk eins og lyst þeirra leyfði meðan leikklukkan gekk á sínum venjulega hraða. Marknetin voru ekki spöruð enda vanir netagerðarmenn víða á Ísafirði ef þörf reynist á viðgerð. Alls urðu mörkin 73 þegar upp var staðið, 45:28, Íslandsmeisturum Vals í vil.
Valur er þar með efst sem fyrr, hefur 20 stig eftir 11 leiki og vandséð hvaða lið deildarinnar á að standast þeim snúning.
Að loknum fyrri hálfleik var munurinn 10 mörk, 25:15, Valsmönnum í vil og strax ljóst að þeir voru ekki komnir vestur í Skutulsfjörð til þess að sitja með hendur í skauti.
Leikmenn Harðar gerðu hvað þeir gátu til þess að hlaupa með og geta sennilega bara talist góðir þegar upp er staðið þrátt fyrir tap.
Mörk Harðar: Suguru Hikawa 6, Axel Sveinsson 4, Endijs Kusners 3, Sudario Eidur Carneiro 3, Victor Iturrino 3, Jón Ómar Gíslason 3, Jhonatan Santos 2, Daníel Wale Adeleye 2, Guilherme Andrade 1, Tadeo Ulises Salduna 1.
Varin skot: Stefán Freyr Jónsson 12.
Mörk Vals: Þorgils Jón Svölu Baldursson 8, Benedikt Gunnar Óskarsson 7, Bergur Elí Rúnarsson 6, Vignir Stefánsson 6, Finnur Ingi Stefánsson 4, Róbert Aron Hostert 4, Aron Dagur Pálsson 3, Agnar Smári Jónsson 3, Arnór Snær Óskarsson 2, Breki Hrafn Valdimarsson 1, Stiven Tobar Valencia 1,
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 9, Sakai Motoki 7.
Staðan í Olísdeild karla:
Valur | 11 | 10 | 0 | 1 | 377 – 308 | 20 |
Afturelding | 10 | 6 | 2 | 2 | 301 – 275 | 14 |
FH | 10 | 6 | 2 | 2 | 291 – 285 | 14 |
Fram | 11 | 5 | 3 | 3 | 328 – 322 | 13 |
ÍBV | 10 | 5 | 2 | 3 | 334 – 304 | 12 |
Stjarnan | 10 | 4 | 3 | 3 | 295 – 285 | 11 |
Selfoss | 10 | 4 | 1 | 5 | 301 – 311 | 9 |
Grótta | 9 | 3 | 2 | 4 | 251 – 249 | 8 |
KA | 10 | 3 | 2 | 5 | 283 – 297 | 8 |
Haukar | 10 | 3 | 1 | 6 | 290 – 284 | 7 |
ÍR | 10 | 3 | 1 | 7 | 281 – 342 | 5 |
Hörður | 11 | 0 | 1 | 10 | 317 – 386 | 1 |