- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Markmið okkar er skýrt

Eva Björk Davíðsdóttir, landsliðskona í handknattleik verður í eldlínunni með landsliðinu í Skopje í vikulokin. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Við erum spenntar fyrir að komast loksins í að spila eftir langt stopp,“ sagði Eva Björk Davíðsdóttir, landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is en Eva Björk er í landsliðinu sem tekur þátt í forkeppni heimsmeistaramótsins í Skopje í vikulokin. Þá mætir íslenska landsliðið þremur liðum í keppni um tvö laus sæti á næsta stig undankeppni HM.


Landsliðið hefur ekki leikið saman frá því að það mætti Færeyingum í vináttuleikjum hér á landi í síðari hluta nóvember 2019. Síðustu keppnisleikir voru í lok september sama ár. Það ríkir því talsverð tilhlökkun að fá loksins að spila alvöru keppnisleiki, að sögn Evu Bjarkar.


„Það hefur nánast alltaf eitthvað komið upp á síðasta árið þegar staðið hefur til að landsliðið kæmi saman enda veirufaraldurinn verið í gangi. Við fengum reyndar góðan tíma saman til æfinga í síðasta mánuði þar sem okkur tókst að stilla saman strengina. Til viðbótar fáum við að þessu sinni nærri viku við æfingar og undirbúning áður en kemur að leikjunum þremur í Makedóníu. Það er frábært að fá loksins leikina.“

Maður í manns stað

Talsverðar breytingar hafa orðið á landsliðshópnum frá því að hann kom saman til síðustu leikja. Eva Björk segir að það þjóni ekki tilgangi að velta þeim staðreyndum of mikið fyrir sér. Vinna verði úr þessari stöðu „Deildin heima er alltaf að verða betri og á meðan ástandið er eins og það er þá verðum við að byggja mest á þeim leikmönnum sem eru heima. Vissulega er alltaf eftirsjá af samherjum en það kemur maður í manns stað.“

Góður tími í Skopje

Landsliðið lagði af stað í gærmorgun og kom til Skopje eftir miðnætti síðastliðna nótt. Framundan eru fjórir æfingadagar í Skopje áður en alvaran tekur við á föstudag með leik við landslið Norður-Makedóníu. Daginn eftir stendur fyrir dyrum leikur við Grikki og loks á sunnudaginn við Litháa.
„Ég held að það verði mjög gott að fá nokkra daga úti til að æfa og vera um leið búnar að ná ferðalaginu úr okkur í stað þess að mæta daginn fyrir fyrsta leik.“

Viljum í umspilið

Eva Björk segir að styrkur landsliðs Norður-Makedóníu sé þekktur. „Við lékum hörkuleik við Norður-Makedóníu í forkeppni HM fyrir tveimur árum. Grikki og Litháa þekkjum við ekki eins vel. Hvað sem því líður þá viljum við fyrst og fremst einbeita okkur að okkur sjálfum. Markmiðið er skýrt og það er að komast áfram á næsta stig keppninnar og fara í umspilið í vor,“ sagði Eva Björk Davíðsdóttir, landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is.

Leikir Íslands í forkeppni HM:
19. mars, kl. 16.45: Ísland – Norður-Makedónía
20. mars, kl. 18.45: Ísland – Grikkland
21. mars, kl. 18.45: Ísland – Litháen

Að sögn Róberts Geirs Gíslasonar, framkvæmdastjóra HSÍ, hefur ekki fengist svar við því hvort leikirnir verði teknir upp og sendir út í sjónvarpi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -