- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Markmiðið var að gera eitthvað óvænt

Díana Guðjónsdóttir þjálfari Hauka. Mynd/Olísdeildin
- Auglýsing -

„Við vorum ákveðnar í að taka þátt í úrslitakeppninni til þess að gera eitthvað óvænt. Ég held að okkur hafi tekist þokkalega við það ætlunarverk okkar,“ sagði Díana Guðjónsdóttir þjálfari Hauka í samtali við handbolta.is eftir að lið hennar vann deildarmeistara ÍBV í framlengdum leik á Ásvöllum í gær, 29:26, í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik.

Staðan er jöfn, 2:2 í vinningum talið. Framundan er oddaleikur í Vestmannaeyjum á þriðjudaginn klukkan 18.

Líður vel í framlengingu

Óhætt er að taka undir orð Díönu að Haukum hafi tekist að koma á óvart í úrslitakeppninni. Fyrst slógu Haukar út Fram í fyrstu umferð og hafa nú unnið tvo leik gegn ÍBV sem vart tapaði leik í Olísdeildinni í vetur. Þess utan hefur Haukaliðið tekið þátt í þremur framlengingum í úrslitakeppninni og unnið í öll skiptin. „Okkur virðist líða vel í framlengingu,“ sagði Díana og bætti við.

Þetta er liðsíþrótt

„Ég er með frábæran hóp og liðsheild. Að þessu sinni tefldi ég fram mörgum leikmönnum strax í fyrri hálfleik. Meira að segja hvíldi ég Elínu Klöru á löngum kafla í fyrri hálfleik, nokkuð sem kom sérfræðingum örugglega á óvart. Handbolti er liðsíþrótt. Það er liðsheildin sem vinnur leiki. Ungur markvörður, Elísa Helga Sigurðardóttir sem fædd er 2005, kom inn seint í leiknum og varði frábærlega eftir að Margrét [Einarsdóttir] hafði aðeins dottið niður. Þetta er eitt dæmi um þá geggjuðu liðsheild sem ég er með í höndunum,“ sagði Díana.

Fólk fær eitthvað fyrir peninginn

Framundan er oddaleikur í Vestmannaeyjum, nokkuð sem Díana sagði eftir þriðja leikinn í Vestmannaeyjum á dögunum að yrði raunin. Hún ætlaði að mæta í oddaleik til Eyja.

„Nú stendur fyrir dyrum hreinn úrslitaleikur. Eru ekki áhorfendur að mæta til þess að sjá spennandi leiki. Við stöndum okkur í því að fólk fái eitthvað fyrir aðgangseyrinn,“ sagði Díana Guðjónsdóttir þjálfari kvennaliðs Hauka í samtali við handbolta.is á Ásvöllum í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -